Tvö skemmtiferðaskip í Grundarfjarðarhöfn í dag

                              Tvö skemmtiferðaskip eru nú í Grundarfjarðarhöfn.  Þetta eru skipin Columbus sem er 14.903 tonn og Funchal sem er 9.563 tonn.  Nokkur hluti farþega skipanna hafa farið í skoðunarferðir um Snæfellsnes en aðrir kusu að ganga um bæinn og skoða hann í fallegu og kyrrlátu veðri.  Vel var tekið á móti farþegunum og var m.a. sýning hjá móttökuhópi skemmtiferðaskipa við Sögumiðstöðina sem féll í góðan jarðveg.  Bæði þessi skip hafa áður komið í Grundarfjarðarhöfn og hefur t.d. áhöfn Funchal leikið knattspyrnu við heimamenn í þeim heimsóknum. 

Moulin Rouge í Ólafsvík

Þann 20. ágúst verður leikritið Moulin Rouge frumsýnt á Klifi í leikstjórn Kristnýjar Rósar Gústafsdóttur. Leikritið verður sýnt tvisvar þann 20. og 21. ágúst á Klifi og mun kosta 1000 kr. á sýninguna. Allur ágóði rennur til góðgerðamála. 

Tveir Grundfirðingar heiðraðir

Um helgina voru tveir Grundfirðingar heiðraðir fyrir framlag sitt til menningarmála. Fræðslu- og menningarmálanefnd Grundarfjarðarbæjar veitti Dögg Mósesdóttur verðlaunin Helgrindur. Þessi verðlaun eru veitt fyrir óeigingjarnt starf í þágu menningar í Grundarfirði. Dögg er vel að þessum verðlaunum komin því hún hefur staðið fyrir og skipulagt alþjóðlegu kvikmyndahátíðina Northern Wave sem var haldin í annað sinn í ár. Hátíðin dregur að gesti úr öllum heimshornum og vekur ómælda athygli. Eyrbyggjar – Hollvinasamtök Grundarfjarðar veittu í fyrsta sinn verðlaunin Vitann. Verðlaunin eru veitt einstaklingi sem hefur látið verulega til sín taka í þágu lista, menningar eða annarra framfara í byggðarlaginu. Vitann hlaut Ingi Hans Jónsson fyrir frumkvæði sitt og þrautseigju í uppbyggingu Sögumiðstöðvarinnar og fjölmörgum öðrum verkefnum. Við óskum Dögg og Inga Hans innilega til hamingju með þessar verðskulduðu viðurkenningar.

UMFG safnar dósum á morgun þriðjudaginn 28 júlí.

UMFG stendur fyrir dósasöfnun á morgun þriðjudag. Gengið verður í hús og við biðjum alla um að taka vel á móti krökkunum okkar.   Þeir sem ætla í dósasöfnun eiga að mæta hjá Ragnar og Ásgeir kl 17:00 á morgun.   kveðja  Stjórn UMFG 

Vel heppnuð bæjarhátíð "Á Góðri Stund" um helgina. 3.000 manns sóttu hátíðina

Bæjarhátíðin "Á Góðri Stund" sem haldin var um helgina tókst í alla staði frábærlega.  Veðrið var að mestu leyti afar gott þótt hitastigið væri ekki alltaf hátt.  Skemmtiatriði og önnur atriði hátíðarinnar tókust afbragðs vel og voru rómuð af gestum hátíðarinnar.    Framkvæmdastjóri hátíðarinnar, Baldur Orri Rafnsson, segir að hátíðin hafi gengið eins og áætlað var og að öll atriði hafi heppnast fullkomlega.  Baldur var á þönum alla daga hátíðarinnar og unni sér ekki hvíldar.  Ástæða er til þess að þakka Baldri fyrir frábær störf við undirbúning og framkvæmd hátíðarinnar.  Starfsmenn Grundarfjarðarbæjar sáu um hreinsun bæjarins meðan á hátíðinni stóð og eftir að henni lauk alla dagana og stóðu þeir sig með mikilli prýði og eiga þökk skilið.  Bærinn var hreinn og snyrtilegur á hverjum morgni og ekki að sjá að þrjú þúsund manns hefðu verið á samkomu þar kvöldið áður.  Nánast allir gestir hátiðarinnar voru sjálfum sér og hátiðinni til mikils sóma.  Á því voru aðeins örfáar undantekningar sem reyndar snertu sjálf hátíðarhöldin ekkert.   Á næstu dögum koma skemmtilegar myndir frá hátíðinni á heimasíðu bæjarins.

Góðar stundir "Á Góðri Stund" í Grundarfirði

Bæjarhátíðin "Á Góðri Stund" hófst formlega í gær í blíðskaparveðri.  Raunar má segja að hátíðin hafi í raun byrjað á fimmtudaginn með skreytingum hverfanna og stórkostlegum tónleikum með stórsveit og Bjarna Ara og Ragga Bjarna þar sem hátt í eitt þúsund manns voru saman komin.  Margt var á dagskránni í gær og gestir og heimamenn skemmtu sér hið besta.  Örlitlar regnskúrir gerði í gærkvöldi sem þó trufluðu hátíðahöldin lítið.  Í morgun vöknuðu hátíðargestir og heimamenn í sólskini og afskaplega fallegu veðri.  Dagskráin í dag er bókstaflega yfirfull af skemmtilegum atriðum og hápunkturinn verður í kvöld með skrúðgöngum í litunum fjórum og skemmtun á bryggjunni.  Þegar eru hafin víðavangshlaup, útsýnishlaup, dorgveiði og sögustund fyrir börnin og innan skamms hefst súpusala Lions.  Mikill fjöldi fólks er þegar kominn á hátíðarsvæðin til þess að njóta og taka þátt í þessum atriðum. 

Breyting á dagskrá "Á góðri stund"

Staðsetning á öllum viðburðum sem gerast áttu á íþróttavelli hafa verið færðir á sparkvöll sem er fyrir ofan sundlaug. Fjölskylduleikir, fimleikasýning, brekkusöngur og víðavangshlaup hafa verið færðir s.s. á sparkvöll fyrir ofan sundlaug.

Fréttatilkynning frá norska húsinu.

  N.k. laugardag, 25. júlí n.k. kl. 14.00 verða opnaðar nýjar sýningar í Norska húsinu í Stykkishólmi.

Gamlar myndir nýkomnar í myndabankann

Bókasafnið hefur tvisvar flutt sig um set síðustu tólf árin. Nú er búið að setja inn myndir af flutningi úr grunnskólanum yfir götuna að Fögrubrekku eða Borgarbraut 18, byggingu Smiðjunnar að Borgarbraut 16 og flutningi bókasafnsins yfir bílaplanið 2001. Bráðum koma svo myndir af byggingu Dvalarheimilisins og kirkjunnar. Fylgist með.   Gleðilega hátíð á góðri stund.   

Breytt gjaldskrá tjaldsvæðis

Breytingar hafa verið gerðar á gjaldskrá tjaldsvæðis Grundarfjarðar. Nýja gjaldskrá er að finna hér.