Búið að opna gallerí Kind

Frétt af vef Skessuhorns  25.06.2009    Gallerí Kind nefnist nýtt handverkshús sem opnað hefur verið í Grundarfirði. Þar verður ýmiskonar handverk til sölu og lögð áhersla á íslensku ullina. Ingibjörg Sigurðardóttir er eigandi gallerísins en hún og fjölskylda hennar eru með nokkrar kindur. Ingibjörg spinnur sína eigin ull og stefnir að því að vinna ullina frá “kind í kápu.” Rokkurinn verður því látinn snúast fyrir gesti í Gallerí Kind. Einnig verða í boði ýmsir handunnir skraut- og nytjahlutir frá fleirum en Ingibjörgu.  Opið verður frá klukkan 13 til 16 virka daga og flestar helgar yfir sumartímann. Annars er opnunartími frjáls og gestir geta banka upp á ef einhver er heima. Þá verður aukið við opnunartímann þegar skemmtiferðaskip hafa viðdvöl í Grundarfirði.

Fjalladagar 2009

Nýstofnað Ferðafélag Snæfellsness stendur fyrir fjalladögum um helgina. Boðið er upp á ýmsar skemmtilegar göngur. Nánari upplýsingar er að finna hér. 

Nýr skrifstofustjóri Grundarfjarðarbæjar

Eyþór Björnsson hefur störf sem skrifstofustjóri Grundarfjarðarbæjar. Hann er mörgum Grundfirðingum kunnur enda að snúa aftur eftir fimm ára fjarveru.    

Góð þátttaka í kvennahlaupi.

20 ár eru frá því að fyrsta kvennahlaupið var haldið hér á landi og sífellt hefur fjölgað þeim konum sem hlaupa allstaðar um landið.  Eins og undanfarin ár var hlaupið hér í Grundarfirði og tóku 28 konur og stúlkur þátt, en á föstudagskvöldinu hlupu 10 konur frammi á Akurtröðum þar sem þær voru á ættarmóti.  Farið var í léttan ratleik þar sem 20 vísbendingum og spurningum var dreift um allan bæin og höfðu þátttakendur 30 mín til að finna sem flestar.  Að loknu hlaupi var boðið upp á kristal, svala, epli og appelsínur.  Grundarfjarðarbær bauð konunum í sund eftir hlaupið og Lyfja Grundarfirði gaf þeim ilmvatnsprufur.  

MV Clipper Adventurer heimsækir Grundarfjörð

MV Clipper Adventurer var smíðað í Júgóslavíu heitinni og fór í sína fyrstu sjóferð 1976. Þetta er smátt skip, aðeins 5.750 tonn og 100 metrar á lengd. Í áhöfn eru 84 og ber það 122 farþega. Skipið er sérhannað fyrir skemmtiferðasiglingar með könnunaryfirbragði og er t.a.m. með 10 hraðskreiða zodiac báta fyrir gesti sína. Þetta er fyrsta heimsókn skipsins til Grundarfjarðar og að þessu sinni eru farþegarnir flestir bandarískir. Skipið leggur að bryggju á miðvikudag klukkan 8:00 og heldur úr höfn 18:00.

Tombóla

Þær Rakel Mirra Steinarsdóttir og Ragnheiður Arnardóttir sem báðar eru á sjötta aldursári  héldu tombólu sunnudaginn 21.júní og létu ágóðann renna í söfnun á vatnsrennibraut fyrir sundlaugina. Þær söfnuðu 1.065 kr.    

17. júní - myndir

Hér er að finna myndir af hátíðarhöldum 17. júní og vígslu nýrrar sundlaugar. Myndirnar tók Sverrir Karlsson.

17. júní 2009: Ný sundlaug vígð í Grundarfirði

Frétt af vef Skessuhorns  19.06.2009   Klippt á borða og laugin vígð.Meðal viðburða á þjóðhátíð í Grundarfirði á þjóðhátíðardaginn var vígsla nýrrar sundlaugar, sem reist var á grunni þeirrar gömlu sem tekin var í notkun árið 1976. Nýja sundlaugin er úr sömu efnum og sú gamla, en fullkomnari að því leyti að við bakka hennar er svokallaður öldubrjótur, þar sem vatnið rennur áfram yfir í rennur og þaðan í hreinsikerfi laugarinnar. Sundlaugin er byggð á trégrind og laugarkerið er eins og í gömlu lauginni plastdúkur frá Seglagerðinni. Stærðin er sú sama og áður 8x16,66 metrar. Ekkert ásættanlegt tilboð barst í framkvæmdirnar í vor og var því ákveðið að starfsmenn bæjarins undir stjórn Ágústs Jónssonar ráðsmanns sæju um verkið og fengju til aðstoðar iðnaðarmenn á staðnum. Gamla laugin var rifin í byrjun maí og smíði við endurnýjunina hófst síðan 14. maí.

Grundar- og Kvernárhlaup 17. júní 2009

Hin árlegu Grundar- og Kvernárhlaup fóru fram í góðu veðri á 17. júní sl.  Þátttaka í hlaupunum hefur verið að aukast á ný.  Hér koma nokkrar myndir sem Björg Ágústsdóttir tók af þátttakendum og fleirum:    

17. júní 2009