Ný tímatafla UMFG tekur gildi í dag.

Tímatafla UMFG tekur gildi föstudaginn 4. september, en frjálsar byrja ekki fyrr en á mánudag. Samkvæmt tímatöflu byrjar því fótbolti í dag kl. 15.10-18.30. Hér má sjá tímatöfluna. 

Stikun gönguleiða í Grundarfirði

Nú stendur yfir sameiginlegt átak Grundarfjarðarbæjar og Ferðafélags Snæfellsness um merkingar gönguleiða í Grundarfirði. Undanfarnar helgar hafa verið stikaðar tvær leiðir, önnur í kringum Kirkjufell og hin upp á Mön. Nú á sunnudaginn verður næsta leið merkt og liggur hún austan Stöðvarinnar út að Sandvík. Reiknað er með að halda áfram að merkja gönguleiðir á meðan snjór og vetrarveður eru ekki til trafala. Svæðið hér í kring er að mörgu leyti ónýtt auðlind sem alltof fáir hafa uppgötvað. Með merkingu gönguleiða er verið að efla möguleika til útivistar og afþreyingar fyrir heimamenn og gesti. Merktar  gönguleiðir auka öryggi þeirra sem vilja ganga um svæðið og einnig er með þeim verið að stýra umferð og vernda umhverfið. Að merkja gönguleiðir er hin besta skemmtun og eru Grundfirðingar hvattir til að taka þátt. Hópurinn ætlar að hittast í Sögumiðstöðinni klukkan 16:00 á sunnudaginn áður en haldið er í verkið.

Snæfellsnesrall Nesbyggðar

5. og 6. umferð Íslandsmótsins í rallakstri fer fram á Snæfellsnesi um helgina. Keppt verður á föstudegi og laugardegi.   Nánari upplýsingar má finna í hlekkjum hér að neðan: Dagskrá Ferjuleiðalýsingar Sérleiðalýsingar Tímamaster Upplýsingaskýrsla

Hljómsveitin Nögl "kynnir með stolti"

Eins og margir eflaust vita, hefur grundfirska hljómsveitin Nögl staðið í ströngu síðastliðið ár við að spila  og skapa sér nafn í tónlistarbransanum ásamt því að hljóðrita tónlist sína til útgáfu. Diskurinn, sem kom út 21. ágúst s.l. heitir I proudly present og hefur hlotið lof fyrir vandaðar tónsmíðar og góðan hljóm. Hann hefur verið til sölu á Kaffi 59 en seldist upp í síðustu viku. Nú eru komnir fleiri diskar á Kaffið fyrir þá sem vilja ná sér í eintak.

Foreldrafundur í Fjölbrautaskóla Snæfellinga

Boðað er til fundar miðvikudaginn 9. september kl. 20.00, með foreldrum/forráðamönnum nemenda í Fjölbrautaskóla Snæfellinga, Grundargötu 44, 350 Grundarfirði.  Foreldrar/forráðamenn nemenda á Patreksfirði býðst að sækja fundinn í gegnum fjarfundabúnað í framhaldsdeildinni í húsnæði grunnskólans á Patreksfirði. Dagskrá: Markmið og áherslur skólans Kynning á áfangakerfi, stundatöflu og skólareglum, starfsfólki og þjónustu Kynning á INNU - upplýsingakerfi skóla, Moodle – náms- og kennslukerfi FSN og eMission – upptökubúnaði kennsluefnis og útsendinga Kynning á NFSN – nemendafélagi og félagslífi Stofnun foreldraráðs Umræður og önnur mál

Breyttur útivistartími barna og unglinga

Útivistartími barna og unglinga breyttist þriðjudaginn 1. september s.l. Tólf ára og yngri mega vera úti til klukkan 20:00, en 13 - 16 ára til 22:00. Undantekningar eru fyrir síðari hópinn þegar unglingar eru á heimlei frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Aldur miðast við fæðingarár 

Evrópski menningarminjadagurinn

Menningarminjadagur Evrópu verður haldinn sunnudaginn 6. september n.k. Fjölbreytt dagskrá er á menningarminjadeginum í ár. Þema dagsins að þessu sinni er torfhús í fortíð og nútíð.

Áhyggjur af tíðum rafmagnsbilunum

Á fundi bæjarráðs Grundarfjarðar í síðustu viku var rætt um tíð straumrof og bilanir í flutningskerfi raforku á svæðinu. Í ályktun frá fundinum lætur bæjarráð í ljósi þungar áhyggjur af afhendingaröryggi rafmagns í Grundarfirði. Bæjarráð Grundarfjarðar mun taka málið upp á fundi með forsvarsmönnum Rarik og Landsnets í dag, 2. september.    Frétt á vef Skessuhorns 2. september 2009.

Tilkynning frá meistaraflokksráði UMFG

Síðastliðið sumar hófst vinna við að endurvekja meistaraflokk UMFG í knattspyrnu af löngum dvala en í Grundarfirði hefur ekki verið boðið upp á meistaraflokk síðan 1987.   Eftir að Snæfell í Stykkishólmi hætti í vor, þá var enginn möguleiki fyrir menn að leggja stund á alvöru fótbolta, nema sækja æfingar hjá utandeildarliðum fyrir sunnan.  Víkingur Ólafsvík spilar á allt öðru og hærra plani, og er meiningin að UMFG geti í framtíðinni stutt við það góða starf sem unnið er í Ólafsvík.  Leikmenn hefðu þá tækifæri til að spila alvöru leiki í neðrideildum í stað þess að hætta iðkuninni í kringum bílprófsaldurinn.   Ætlunin er að skrá liðið til leiks á Íslandsmóti KSÍ 2010 og stefnt er að því að leikmannahópurinn telji 25-30 manns svo öruggt sé að það náist í lið yfir sumarleyfismánuðina.  Æfingar verða tvisvar í viku í vetur í íþróttahúsi Grundarfjarðar og þjálfaramál eru í skoðun.  Leikmenn verða allir áhugamenn og þurfa að standa straum af kostnaði að mestu leiti sjálfir.  Meistaraflokksráð mun þó reyna að afla stuðnings til að lágmarka kostnað leikmanna við þátttökuna.   Von okkar er sú að Grundfirðingar og aðrir nær og fjær styðji þétt við bakið á okkur og hvetji okkur duglega, þegar við göngum út á völlinn næsta vor.   Búið er að mynda meistaraflokksráð sem mun halda utan um alla starfsemi liðsins.   Baldur Orri Rafnsson Kári Pétur Ólafsson Jón Frímann Eiríksson Tómas Freyr Kristjánsson Gústav Alex Gústavsson Árni Friðjón Árnason  

Icesave mótmælt í Grundarfirði

Af vef Skessuhorns   Fjörutíu manns voru með hávær mótmæli í miðbæ Grundarfjarðar klukkan 12 í dag. Vildi fólkið sýna samstöðu en á sama tíma voru mótmæli annarsstaðar á landinu, meðal annars í Reykjavík og Akureyri þar sem fyrirhuguðum Icesave samningum var mótmælt. “Hávaðinn var ærandi, meðal annars notast við kúabjöllur, trommur og lúðra. Þá voru bílflautur þeyttar óspart. Þetta hlýtur að hafa heyrst suður á Austurvöll,” sagði Jónas Guðmundsson íbúi í Grundarfirði í samtali við Skessuhorn. Áhugafólk um réttlátan og löglegan Icesave samning heldur því fram að samningurinn sem slíkur muni kosta hvern Íslending að minnsta kosti milljón króna. Til stendur að Alþingi afgreiði ríkisábyrgð vegna Icesafe samningsins í dag.