- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Bæjarhátíðin "Á Góðri Stund" sem haldin var um helgina tókst í alla staði frábærlega. Veðrið var að mestu leyti afar gott þótt hitastigið væri ekki alltaf hátt. Skemmtiatriði og önnur atriði hátíðarinnar tókust afbragðs vel og voru rómuð af gestum hátíðarinnar. Framkvæmdastjóri hátíðarinnar, Baldur Orri Rafnsson, segir að hátíðin hafi gengið eins og áætlað var og að öll atriði hafi heppnast fullkomlega. Baldur var á þönum alla daga hátíðarinnar og unni sér ekki hvíldar. Ástæða er til þess að þakka Baldri fyrir frábær störf við undirbúning og framkvæmd hátíðarinnar. Starfsmenn Grundarfjarðarbæjar sáu um hreinsun bæjarins meðan á hátíðinni stóð og eftir að henni lauk alla dagana og stóðu þeir sig með mikilli prýði og eiga þökk skilið. Bærinn var hreinn og snyrtilegur á hverjum morgni og ekki að sjá að þrjú þúsund manns hefðu verið á samkomu þar kvöldið áður. Nánast allir gestir hátiðarinnar voru sjálfum sér og hátiðinni til mikils sóma. Á því voru aðeins örfáar
undantekningar sem reyndar snertu sjálf hátíðarhöldin ekkert.
Á næstu dögum koma skemmtilegar myndir frá hátíðinni á heimasíðu bæjarins.