Vel heppnuð Sigríðarganga

Rúmlega 50 manns mættu í hina árlegu Sigríðargöngu s.l. sunnudag. Veðrið var með besta móti og allir með góða skapið með sér. Engin met voru slegin á niðurleiðinni en sá fljótasti var Hallur Pálsson á u.þ.b. einni mínútu.   Halldór K. Halldórsson tók þessar skemmtilegu myndir í ferðinni.  

Garðaganga Kvenfélagsins Gleym mér ei

Miðvikudagskvöldið 10. júní kl. 20:00 hittist fólk í Þríhyrningnum og fór þaðan í garðyrkugöngu. Heimsóttir voru nokkrir garðar í björtu og fallegu veðri. Lesið meira á fréttasíðu kvenfélagsins og skoðið mokkrar myndir. SuN

Kvennahlaupið 20 ára.

Í ár eru 20 ár frá því að fyrsta kvennahlaupið var haldið og vonast forsvarsmenn hlaupsins til að konur um allt land fjölmenni.  Hlaupið verður haldið 20 júní um land allt og auglýsingar hafa birst í Morgunblaðinu með upplýsingum um hlaupastaði. Hér í Grundarfirði verður líka hlaupið og er mæting laugardaginn 20 júní kl. 12:00 við íþróttahúsið, og lagt af stað 12:10.  Allar konur ættu að finna einhverja vegalengd við sitt hæfi hvort sem þær vilja ganga eða skokka.  Þær sem vilja nálgast kvennahlaupsboli fyrir hlaupið geta haft samband við Kristínu H í S: 8993043 eða komið við í Gröf 4.  Bolirnir eru fallega bleikir í ár og skráningargjaldið er það sama og hefur verið, 1000 kr.

Glampandi sól í Grundarfirði um helgina

Séð yfir Grundarfjörð                               Veðurspáin fyrir komandi helgi í Grundarfirði er aldeilis stórfín.  Gert er ráð fyrir björtu og hægu veðri.  Breiðafjörðurinn skartar sínu fegursta og náttúrudýrðin heillar alla.  Ferðfólkið streymir nú um Snæfellsnesið og tjaldsvæðin fyllast.  Í Grundarfirði er óendanleg náttúrudýrð og útsýnið yfir Breiðafjörðinn á ekki sinn líka.  Kirkjufellið er einstakt, Kolgrafafjörður og Hraunsfjörður eru náttúruperlur.  Fuglalífið er í mestum blóma um þetta leyti.  Leikhópurinn Lotta verður með útileikhús á laugardaginn kl. 11.00 fyrir börn á öllum aldri.  Allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi hvort sem er í þjónustu eða afþreyingu.

Útileikhús í Grundarfirði á laugardaginn

Laugardaginn 13. júní sýnir Leikhópurinn Lotta barnaleikritið Rauðhettu í Grundarfirði. Sýnt verður í Þríhyrningnum og hefst sýningin klukkan 11:00. Sýnt er utandyra og er því um að gera að klæða sig eftir veðri og taka með sér teppi til að sitja á og hlýja sér ef kalt er í veðri.  

Nýr rekstraraðili tekur við tjaldsvæði Grundarfjarðar

Grundarfjarðarbær hefur gert rekstrarsamning við fyrirtækið 65°Ubuntu um rekstur tjaldsvæðis bæjarins. Þessi samningur er gerður í kjölfar umfangsmikilla umbóta á tjaldsvæðinu, bæði hvað varðar stærð og staðsetningu. Í raun er um að ræða þrjú svæði sem henta mismunandi þörfum ferðalanga. Þessar breytingar hafa í för með sér að tekin verður upp gjaldtaka. Áform eru uppi um enn frekar stækkun og eflingu þjónustu.   Nánari upplýsingar um tjaldsvæði Grundarfjarðar er að finna hér.

Stefnumótun Grundfirðinga í ferðaþjónustu

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum þann 8. júní 2009 stefnu í ferðaþjónustu. Upphaf stefnumótunarvinnunnar má rekja til aðgerða bæjarstjórnarinnar og ákvörðunar um að verkefnið yrði liður í mótvægisaðgerðum vegna almennrar skerðingar á aflaheimildum. Með því vildi bæjarstjórn bregðast við og kortleggja möguleika byggðarlagsins til eflingar atvinnulífsins til framtíðar.

Kjör forseta og varaforseta bæjarstjórnar og bæjarráðs til eins árs

Á fundi bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar þ. 8. júní sl. var Sigríður Finsen kosin forseti bæjarstjórnar til eins árs.  Þórey Jónsdóttir var kosin varaforseti til sama tímabils.  Í bæjarráðið voru kosin til eins árs; Rósa Guðmundsdóttir, Sigríður Finsen og Gísli Ólafsson.   Væntanlega er þetta í síðasta sinn sem kosið er til þessara embætta á yfirstandandi kjörtímabili en sveitarstjórnarkosningar verða í maí 2010.

Vel heppnaður Sjómannadagur í frábæru veðri

Hátíðarhöld á sjómannadaginn tókust einkar vel í ár. Forskot var tekið á sæluna á föstudeginum með golfmóti Guðmundar Runólfssonar. 63 mættu til leiks og skemmtu menn sér hið besta. Á laugardeginum lék veðrið við viðstadda. Dagskráin hófst með siglingu Hrings og Farsæls. Þegar komið var í land tók við grillveisla á höfninni við undirleik lúðrasveitarinnar og ýmsar skemmtilegar uppákomur voru í boði.

Vel tekið á móti gestum

Síðastliðinn fimmtudag var mikið um dýrðir í Grundarfirði. Dagurinn hófst með því að skemmtiferðaskipið Spirit of Adventure lagðist að bryggju. Gestirnir voru boðnir velkomnir með ljúfum tónum frá Lúðrasveit Tónlistarskóla Grundarfjarðar. Samtímis var opnaður í fyrsta skiptið markaðurinn Komdu í land. Þar voru samankomnir aðilar af öllu Snæfellsnesi að bjóða vörur sínar og framleiðslu til sölu. Markaður þessi er framtak Steinunnar Hansdóttur og tilraun til að efla verðmætasköpun við heimsóknir skemmtiferðaskipa til Grundarfjarðar. Ekki er hægt að segja annað en að sú tilraun hafi tekist með prýði og þeir 14 aðilar sem tóku þátt voru ánægðir með árangurinn.