- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Nú stendur yfir sameiginlegt átak Grundarfjarðarbæjar og Ferðafélags Snæfellsness um merkingar gönguleiða í Grundarfirði. Undanfarnar helgar hafa verið stikaðar tvær leiðir, önnur í kringum Kirkjufell og hin upp á Mön. Nú á sunnudaginn verður næsta leið merkt og liggur hún austan Stöðvarinnar út að Sandvík. Reiknað er með að halda áfram að merkja gönguleiðir á meðan snjór og vetrarveður eru ekki til trafala.
Svæðið hér í kring er að mörgu leyti ónýtt auðlind sem alltof fáir hafa uppgötvað. Með merkingu gönguleiða er verið að efla möguleika til útivistar og afþreyingar fyrir heimamenn og gesti. Merktar gönguleiðir auka öryggi þeirra sem vilja ganga um svæðið og einnig er með þeim verið að stýra umferð og vernda umhverfið.
Að merkja gönguleiðir er hin besta skemmtun og eru Grundfirðingar hvattir til að taka þátt. Hópurinn ætlar að hittast í Sögumiðstöðinni klukkan 16:00 á sunnudaginn áður en haldið er í verkið.