Brautargengiskonur úr Grundarfirði

Nú á fimmtudaginn lauk námskeiði sem kallast Brautargengi. Brautargengi er námskeið fyrir konur sem vilja hrinda viðskiptahugmynd í framkvæmd og hefja eigin rekstur og fyrir konur sem eru í atvinnurekstri en vilja auka rekstrarþekkingu sína. Að námskeiðinu stendur Impra með stuðningi  SSV og Símenntunarmiðstöð Vesturlands. Námskeiðið stóð frá september til desember. 12 konur tóku þátt, þar á meðal þrjár héðan úr Grundarfirði; Alexandra S. Arnardóttir, Jenný Kolsöe og Kolbrún Grétarsdóttir. 

Vinnu við aðalskipulag Grundarfjarðar 2003 - 2015, dreifbýlishluta, lokið

  Í gær lauk afgreiðslu Grundarfjarðarbæjar á Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2003-2015, dreifbýlishluta, með því að bæjarstjóri undirritaði uppdrætti og greinargerðir.  Bæjarstjórnin lauk umfjöllun sinni á fundi þ. 12. nóvember sl.  Með þessari undirritun lýkur ferli sem staðið hefur yfir með hléum frá árinu 1995.  Aðalskipulaginu var skipt í tvo áfanga og var byrjað á að skipulegggja þéttbýlishlutann og lauk þeim áfanga með staðfestingu ráðherra í desember 2003.  Vonast er til að umhverfisráðherra staðfesti aðalskipulagið á næstu vikum.  Á myndinni halda Hjörtur H. Kolsöe, skipulags- og byggingafulltrúi og Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, bæjarstjóri, aðalskipulagsuppdrættinum á milli sín.

AVS rannsóknarsjóður í sjávarútvegi auglýsir eftir umsóknum

AVS rannsóknasjóður í sjávarútvegi starfar á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Hlutverk sjóðsins er að veita styrki til rannsóknaverkefna, sem auka verðmæti sjávarfangs og til verkefna sem taka á öllum þáttum sjávarútvegs og fiskeldis.Styrkirnir eru til hagnýtra rannsókna og ætlaðir einstaklingum, fyrirtækjum, rannsókna-, þróunar- og háskólastofnunum.   Nánari upplýsingar finnast hér.  

Grundfirskir landsliðsmenn

Úrtökumót fyrir U17 ára landsliðið í blaki var haldið í Kópavogi um helgina. Fjórir Grundfirðingar mættu til leiks og allir voru þeir valdir í liðið sem heldur til Danmerkur nú í lok desember til að keppa á Norðurlandamóti. Þetta eru Baldur Þór Sigurðsson, Friðfinnur Kristjánsson, Sigurður Helgi Ágústsson og Tómar Weyer. Við óskum þeim til hamingju með frábæran árangur.  

Unglingalandsmót UMFÍ verður ekki haldið í Grundarfirði 2010

Stjórn Ungmennafélags Íslands ákvað á fundi sínum laugardaginn 5. desember sl. að auglýsa á ný eftir mótshaldara fyrir Unglingalandsmótið 2010.  HSH hafði tekið að sér að halda mótið árið 2009 en því var síðan frestað um eitt ár til 2010 og haldið á Sauðárkróki á þessu ári.  Eftir að bæjarráð Grundarfjarðarbæjar ákvað að halda ekki áfram framkvæmdum við lagningu gerviefnis á hlaupa-, stökk- og kastbrautir íþróttavallarins á næsta vori, var staðan endurmetin.  Stjórn HSH bauð stjórn UMFÍ að mótið yrði að hluta haldið í Stykkishólmi og að hluta í Grundarfirði, en á það vildi sjtórn UMFÍ ekki fallast.  Það eru auðvitað viss vonbrigði að mótið skuli ekki verða haldið í Grundarfirði, en það var talið ófært að halda framkvæmdum áfram við þær efnahagslegu aðstæður sem nú eru.

Eldri borgarar

Breyting hefur orðið á dagskránni.  Jólabingóið færist fram til föstudagsins  11. desember  og félagsvistin sem þá átti að vera fellur niður. Bingóið hefst kl 20 í Samkomuhúsinu. Munið að taka með ykkur gesti. Veglegir vinningar Bestu kveðjur Stjórnin

Bæjarstjórnarfundur

112. fundur bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar verður haldinn í Samkomuhúsinu mánudaginn 7. desember 2009 kl.16.15. Fundir bæjarstjórnar eru opnir og eru allir velkomnir að koma og hlýða á það sem fram fer.

Íbúð til leigu

Laus til leigu er íbúð á Sæbóli 33. Íbúðin er fimm herbergja, 131,6 m2. Leigan er um 107.000 kr. á mánuði. Íbúðin er laus til 31. maí. Nánari upplýsingar fást á skrifstofu Grundarfjarðarbæjar. 

Jólastemning í leikskólanum

  Glatt var á hjalla í leikskólanum í gær. Foreldrafélagið stóð fyrir samverustund og voru piparkökur málaðar af mikilli list. Heitt kakó var á könnunni og allir í jólaskapi.  

Refaveiði

Bæjarráð Grundarfjarðar hefur samþykkt að frá og með 1. desember 2009 verður ekki greitt fyrir veiddar tófur.