Öskudagur hjá handverkshóp

  Handverkskonur hittust að venju í gærkvöldi og mættu nokkrar í grímubúningum í tilefni af því að öskudagur var nýliðinn. Þær sem mættu ekki í búningum redduðu því snarlega fyrir myndatöku.

Pub Quiz nr 12 í kvöld

Í kvöld heldur hið skemmtilega Pub Quiz áfram og nú er þemað náttúru og landafræði. Nú er kominn tími til að sannreyna náttúru og landafræðikunnáttuna og athuga hvort að þú hefur það sem til þarf til að vinna til verðlauna. Herlegheitin hefjast kl 21:00 á Kaffi 59. Láttu sjá þig.   Þáttakan kostar aðeins 500 kr Allur ágóði rennur óskiptur til Meistaraflokks Grundarfjarðar í knattspyrnu.    Meistaraflokksráð

Velheppnuð Öskudagsskemmtun

  Fjöldi barna mætti á Öskudagsskemmtun Foreldrafélags Grunnskóla Grundarfjarðar. Vel flestir ef ekki allir mættu í glæsilegum búningum og erfitt var fyrir dómnefnd að velja bestu búninganna en keppt var í nokkrum flokkum, mörg börn fengu verðlaun fyrir búningana sína. Ágætis þátttaka var í söngvakeppninni Sníkjóvisjón og sigurvegarar keppninnar voru vel að sigrinum komnir. Kötturinn var sleginn úr tunninni samkvæmt venju og síðan var mikið dansað.  

Samningur um gagnkvæma aðstoð slökkviliða

FRÉTTATILKYNNING Samningur um gagnkvæma aðstoð slökkviliða Í dag, öskudag var undirritaður samningur á milli allra slökkviliða á Vesturlandi á Vatnasafninu í Stykkishólmi. Það eru slökkvilið Stykkishólms og nágrennis, Slökkvilið Grundarfjarðar, Slökkvilið Snæfellsbæjar, Slökkvilið Dalabyggðar, Slökkvilið Reykhólahrepps, Slökkvilið Borgarbyggðar og Slökkvilið Akraneskaupstaðar sem eru aðilar samningsins.   Markmiðið með samningnum er að nýta þau tæki og þann mannafla sem slökkviliðin á Vesturlandi hafa yfir að ráða með gagnkvæmri aðstoð við slökkvistörf ef um meiriháttar eldsvoða eða dreifibruna er að ræða.

Löngu skipulagsferli lokið

Fréttatilkynning frá skipulags- og byggingafulltrúa Grundarfjarðarbæjar   Langþráð tímamót eru staðreynd og er Aðalskipulag Grundarfjarðar 2003 - 2015, dreifbýlishluti, nú staðfest og orðið að veruleika.  Þetta er lokahnykkur í að aðalskipulag fyrir sveitarfélagið í heild sé í gildi.

Kirkjuskólinn fellur niður í dag

Kirkjuskólinn sem átti að vera klukkan 16.15 fellur niður í dag öskudag. 

Baráttufundur um sjávarútvegsmál á Snæfellsnesi

Skessuhorn 17. febrúar 2010: Almennur baráttufundur um sjávarútvegsmál verður í félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík á fimmtudagskvöldið og hefst klukkan 20:30. Víðtæk samstaða er um boðun fundarins en að honum standa fulltrúar Grundarfjarðarbæjar, Snæfellsbæjar, Stykkishólmsbæjar, Smábátafélagsins Snæfells, Útvegsmannafélags Snæfellsness og Verkalýðsfélags Snæfellinga.  Í tilkynningu segir að kastljósum verði einkum beint að þeim efnahags- og samfélagslegu áhrifum sem ríkjandi óvissa um framtíðarskipan í sjávarútvegi hefur. Hún setji mark sitt á fiskvinnslufyrirtækin, fiskvinnslufólk, smábátaútgerðir og yfirleitt allt mannlíf í byggðarlögum á Snæfellsnesi. Þarna vegi þungt hugmyndir um svokallaða fyrningarleið.

Northern Wave í Grundarfirði

frettir@ruv.is  Frétt á vef Ríkisútvarpsins 16. febrúar 2010.   Alþjóðlega stuttmyndahátíðin Northern Wave verður haldin í þriðja skiptið í Grundarfirði á Snæfellsnesi helgina 3.-7. mars næstkomandi. Sýnd verða 75 tónlistarmyndbönd og stuttmyndir frá 20 löndum. Í ár var ákveðið að hafa frítt inn á alla viðburði og að fá Grundfirðinga til að taka virkan þátt í hátíðinni. Fiskisúpukeppni verður haldin meðal Grundfirðinga og er sjálfur sóknarpresturinn, Aðalsteinn Þorvaldsson, skráður til leiks. Gestir hátíðarinnar dæma og velja bestu súpuna.  

Myndakvöld Ferðafélags Snæfellsness

Myndakvöld Ferðafélags Snæfellsness verður í Stykkishólmi, 24. Febrúar kl. 20. Á  Ráðhúsloftinu, Hafnargötu 3. Myndir verða sýndar úr göngum síðasta sumars, ásamt áhugaverðum myndum af fjallgarðinum. Aðgangur er ókeypis.  

Aðalfundur UMFG

Aðalfundur Ungmennafélags Grundarfjarðar   Aðalfundur Ungmennfélags Grundarfjarðar verður haldinn sunnudaginn 21.02.2010 á Hótel Framnesi kl. 16.00.  Boðið verður upp á léttar veitingar. Einning viljum við minna á nýja heimasíðu UMFG en hún er komin upp og er í vinnslu. Endilega kíkið á það.   http://umfg.grundo.is          Stjórn Ungmennafélags Grundarfjarðar