Fyrsta útskriftin frá Eldhömrum

    Það var glæsilegur hópur verðandi skólabarna sem útskrifaðist frá leikskóladeildinni Eldhömrum sl. þriðjudag, 14. júní. Börnin gerðu útskriftarhatta fyrir daginn og fengu góðar gjafir í tilefni af útskriftinni. Foreldrafélag leikskólans gaf merkta íþróttapoka, handklæði og vatnsbrúsa og Grunnskólinn gaf börnunum reynitré. Að auki fengu útskriftarnemarnir möppur með myndum úr starfinu á Eldhömrum. Það var auðvitað slegið upp fínustu grillveislu fyrir útskriftarnemana, foreldra þeirra og starfsfólk og boðið upp á pylsur, djús, kaffi og tertu.  

Lýsing skipulagsverkefnis vegna endurskoðunar aðalskipulags

    Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar hefur samþykkt lýsingu skipulagsverkefnis vegna endurskoðunar aðalskipulags bæjarins. Í verkefnislýsingunni er gerð grein fyrir tilganginum með endurskoðun aðalskipulagsins og hvernig staðið verður að henni. Þar er því lýst hvernig skipulagsgerðin tengist ýmsum öðrum áætlunum og stefnum ríkis og sveitarfélaga, t.d. hvernig tekið verður tillit til nýlegs svæðisskipulags fyrir Snæfellsnes. M.a. er farið yfir það hvernig unnið verður að greiningu og stefnumótun við áætlunargerðina, auk þess sem lýst er hvernig samráð verður við íbúa og aðra um verkefnið.   

Góð gjöf til Eldhamra frá kvenfélaginu Gleym mér ei

    Leikskóladeildin Eldhamrar fékk góða heimsókn frá kvenfélaginu Gleym mér ei í gær, 13. júní. Það voru þær Mjöll og Sólrún Guðjónsdætur sem komu færandi hendi fyrir hönd kvenfélagsins með tvö hjól til leikskóladeildarinnar sem Anna Rafnsdóttir, deildarstjóri Eldhamra, veitti viðtöku.   Eins og sjá má þá voru börn og starfsfólk Eldhamra himinlifandi með þessa frábæru gjöf sem kemur að góðum notum og er kvenfélaginu Gleym mér ei færðar kærar þakkir fyrir.  

Auglýsing um breytingu á deiliskipulagi Mýrarhúss.

  Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar hefur samþykkt á fundi  12. maí 2016 að auglýsa breytingu á deiliskipulagi  samkvæmt  43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Deiliskipulagsbreytingin felst í því að ný sumarhúsalóð, merkt 6, er skilgreind norðan við lóð 5. Lóðin er 1050 m² að stærð og innan byggingarreits er heimilt að reisa 75 m² sumarhús. Mesta leyfilega hæð mannvirkis verður 5m. Sjá nánari upplýsingar í deiliskipulagstillögu.

Aðalfundur Dvalar-og hjúkrunarheimilisins Fellaskjóls

    Aðalfundur Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Fellaskjóls Grundarfirði verður haldinn á heimilinu þann 20.06.16 kl. 20:30.   Dagskrá: Venjuleg aðalfundarstörf Skýrsla um nýframkvæmdir        

Kjörskrá vegna forsetakosninga

Kjörskrá vegna forsetakosninga þann 25. júní 2016 verður lögð fram 15. júní 2016. Kjörskráin mun liggja frammi til skoðunar á bæjarskrifstofu Grundarfjarðar á opnunartíma skrifstofunnar.   Nánari upplýsingar um kosningarnar má finna á kosningavef innanríkisráðuneytisins.      

Vefur um endurskoðun aðalskipulags Grundarfjarðarbæjar

    Nú stendur yfir vinna við endurskoðun aðalskipulags Grundarfjarðarbæjar, en ráðgjafarfyrirtækið Alta aðstoðar við verkið. Opnaður hefur verið sérstakur kynningarvefur fyrir verkefnið undir vefslóðinni http://www.skipulag.grundarfjordur.is/  

Sumarnámskeið fyrir börn fædd 2004-2010

  Sumarnámskeið Grundarfjarðarbæjar hófust mánudaginn 6. júní og verða í boði fyrir börn fædd 2004-2010. Námskeiðin verða í þrjár vikur í júní og tvær vikur í ágúst. Næsta námskeið hefst á mánudaginn, 13. júní og stendur til 16. júní.      

Garðsláttur fyrir eldri borgara og öryrkja

    Líkt og undanfarin ár þá býður Grundarfjarðarbær lífeyrisþegum og öryrkjum niðurgreidda þjónustu við garðslátt í sumar.   Umsóknareyðublöð um garðslátt má nálgast á bæjarskrifstofu. Einnig er hægt að sækja um gegnum tölvupóst eða síma á opnunartíma bæjarskrifstofu.   Umsókn um garðslátt Gjaldskrá  

Snæfellsnes, Eyja-, Miklaholts-, og Kolbeinstaðahreppur – straumleysi

Raforkunotendur á Staðarsveitar-, og Laugagerðislínu, rafmagnslaust verður aðfaranótt föstudagsins 10. júní frá miðnætti til kl. 07:00 vegna vinnu á 66 kV flutningslínu Landsnets.   Búast má við rafmagnstruflunum á norðanverðu Snæfellsnesi á saman tíma. Rarik biðst velvirðingar á óþægindum sem af þessu stafa.