Sögumiðstöðin setur upp stærstu fiskasýningu landsins

Af vef Skessuhorns:   "Við vildum fara nýjar leiðir í að kynna sérstöðu Snæfellsness sem tvímælalaust er sjórinn og sjávarafli. Hér í Sögumiðstöðinni er verið að einangra og innrétta stjórt herbergi þar sem broti úr borgarísjaka verður komið fyrir á miðju gólfi og nær hann upp í loft. Við fengum gefins kælivél sem mun halda lítilsháttar frosti í herberginu yfir ferðamannatímann og fram á næsta haust," sagði Ingi Hans Jónsson í Sögumiðstöðinni í samtali við Skessuhorn. 

Músíktilraunir 2009

Grundfirska hljómsveitin Flawless Error með þeim Sigþóri Fannari Grétarssyni, Ásbergi Ragnarssyni og Bergi Einari Dagbjartssyni komst í úrslit í músíktilraunum sl. mánudag. Glæsilegur árangur hjá þeim.  

Vel heppnaður íbúafundur

Um 30 manns mættu á íbúafund á vegum Kvarna í samkomuhúsinu í gær. Hér er texti sem unnin var uppúr umræðum og hugmyndum á fundinum:    Nýtum betur auðlindir, aðstöðu og krafta fólks   Á þeim tímamótum sem við stöndum nú frammi fyrir skiptir miklu að vinna saman, vera útsjónarsöm og gera sem mest úr því sem við höfum.  Þetta voru meginskilaboð íbúafundar í Grundarfirði sem haldinn var síðastliðið þriðjudagskvöld, þar sem tæplega 30 manns tóku þátt. Rætt var um að íbúar megi ekki ætlast til þess að allt frumkvæði komi frá bæjarstjórn, heldur þurfi allir að taka virkan þátt í því skapa „hamingju í heimabyggð“.  Mikið var rætt um samfélagsmiðstöð af einhverjum toga, þar sem væri fjölbreytt aðstaða til tómstundastarfs, sköpunar og samveru fyrir alla aldurshópa, nægt rými og opið hús.  Til dæmis var nefnd fjölbreytt vinnuaðstaða, t.d. fyrir handverksfólk og jafnvel sala á handverki, námskeiðahald og fleira þess háttar.  Nýta ætti húsnæði sem til er nú þegar.     

Handverkshópurinn

Handverkshópurinn ætlar að hittast á næst komandi fimmtudag klukkan 19:30. í húsi bókasafnsins. Allir velkomnir.

Markaðsmál ferðaþjónustu innanlands

  Við hátíðlega athöfn í Utanríkissráðuneytinu  staðfestu Össur Skarphéðinsson ferðamálaráðherra og forsvarsmenn markaðsstofa samninga við sjö markaðsstofur landshlutanna sem annast munu markaðsmál ferðaþjónustu innanlands. Vonast er til að samningar þessi leggi grundvöll að tryggum rekstri þeirra á næstu árum. Samstarfið byggir á sérstakri fjárveitingu af fjáraukalögum og á þeirri forsendu að sveitarfélög og fyrirtæki komi einnig á afgerandi hátt að rekstrinum á móti ríkinu.    

Weird girls frumsýna myndband frá Grundarfirði

Annað kvöld, föstudaginn 27. mars mun Weird Girls hópurinn sýna myndband sitt sem þær gerðu í Grundarfirði í febrúar. Sýningin verður á Cafe Kultura, Hverfisgötu 18 og byrjar kl. 21 og stendur fram yfir miðnætti. Þar mun myndbandið rúlla ásamt öðrum sem þær hafa gert.    

Verum stolt af því sem við höfum og stöndum saman

Á íbúafundi í Snæfellsbæ á þriðjudagskvöld, var fólki efst í huga að nú sé mikilvægt að auka umræðu, samkennd og samstöðu.  Tæplega 50 manns á breiðum aldri tóku þátt í fundinum og fögnuðu mjög framtakinu.   

Skúlína Hlíf skipuð skólameistari

Menntamálaráðherra hefur skipað Skúlínu Hlíf Kjartansdóttur í embætti skólameistara Fjölbrautaskóla Snæfellinga til fimm ára frá 1. apríl 2009 að telja að fenginni umsögn skólanefndar skólans. Tíu umsóknir bárust um embætti skólameistara fjölbrautaskólans. 

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla

Alþingiskosningar fara fram laugardaginn 25. apríl 2009. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar er hafin. Í umdæmi sýslumanns Snæfellinga fer hún fram á eftirtöldum stöðum: Skrifstofu sýslumanns, Hrannarstíg 2 í Grundarfirði, virka daga kl.11 til 15. Skrifstofu sýslumanns, Bankastræti 1A í Ólafsvík, virka daga kl.11 til 15. Skrifstofu hreppsstjóra, Þverá í Eyja – og Miklaholtshreppi, virka daga kl.12 til 13. Skrifstofu sýslumanns, Borgarbraut 2 í Stykkishólmi, virka daga kl.10 til 15.30 en þar verður einnig opið um helgar frá kl. 12 til 13 eftir 1. apríl.

Lögheimili fyrir alþingiskosningar 2009

Með forsetabréfi um þingrof og almennar kosningar til Alþingis nr.14/2009 hefur verið ákveðið að kosningar skuli verða laugardaginn 25. apríl 2009. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 23. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000, sbr.  a-lið ákvæðis til bráðabirgðar í lögum nr. 16/2009, skal taka á kjörskrá alla þá sem skráðir voru með lögheimili í ákveðnu sveitafélagi samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár fjórum vikum fyrir kjördag, uppfylli þeir að öðru leyti skilyrði 1. mgr. 1 gr. kosningalaga.