- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Á íbúafundi í Snæfellsbæ á þriðjudagskvöld, var fólki efst í huga að nú sé mikilvægt að auka umræðu, samkennd og samstöðu. Tæplega 50 manns á breiðum aldri tóku þátt í fundinum og fögnuðu mjög framtakinu.
Þátttakendur töldu að nýta þurfi kosti átthaganna og auka þekkingu heimamanna á eigin samfélagi, umhverfi, sögu og þjónustu. Bundnar eru vonir við nýja átthagastofu. Ýmis tækifæri felist í ferðaþjónustu, t.d. með fjölbreyttri gistiaðstöðu og afþreyingu og jafnvel einfaldir hlutir eins og merkingar geti haft mikið að segja.
Þegar horft var til Snæfellsness alls vildu þátttakendur sjá aukna samvinnu, samhug og samkennd. Sérstaklega var lögð áhersla á samstarf í atvinnumálum, ferðaþjónustu og menningarmálum. Aukin samvinna muni leiða til sameiningar og sameiginlega leggi svæðið áherslu á sjálfbæra þróun. Bent var á að Green Globe verkefnið sé vannýtt tækifæri og að þar mætti virkja íbúa betur. Æskilegt væri að ferðaþjónustuaðilar væru duglegir að vísa hver á annan. Fram komu hugmyndir um útilistaverk um allt Snæfellsnes þar sem þemað gæti t.d. verið þorskurinn. Hugsanlega mætti koma upp sameiginlegum innri vef fyrir Snæfellsnes. „Verum jákvæð og dugleg“, sagði yngri kynslóðin sem einnig vildi meiri samgang milli skólanna á Nesinu. Kjarninn í skilaboðum fundarins var sá að ef íbúar á Snæfellsnesi þekkja vel sitt svæði og eru stoltir af því, þá skapi það grunn að nýsköpun og laði að gesti. Þannig megi stuðla að „hamingju í heimabyggð“.
Fundurinn var sá fyrsti af fjórum sem Kvarnir, áhugahópur um framtíðina á Snæfellsnesi standa fyrir í samstarfi við sveitarfélögin. Yfirskrift fundanna er „Snæfellsnes á tímamótum – hamingja í heimabyggð“. Að fundunum loknum verður unnið frekar úr niðurstöðum. Næsti fundur er ætlaður íbúum í dreifbýli á Snæfellsnesi og verður haldinn á Breiðabliki í kvöld kl. 20.30.