Unglingalandsmótið í Grundarfirði verður árið 2010

Á fundi stjórnar UMFÍ þ. 7. febrúar sl. var samþykkt að verða við ósk stjórnar HSH um að unglingalandsmótið í Grundarfirði verði haldið árið 2010 eða einu ári síðar en upphaflega var ákveðið.  Þessi ósk um að vera með mótið ári síðar en upphaflega var sótt um, er til komin vegna þeirra efnahagsþrenginga sem dunið hafa yfir.  Þessi frestur veitir aukið svigrúm til að undirbúa svæðin sem mótið verður haldið á.  Stefnt er að því að ljúka við undirbúning á þessu ári að undanskildu gerviefni á hlaupa- og stökkbrautir á frjálsíþróttavellinum, en það er lang dýrasta framkvæmdin sem eftir er.  Félagsmenn HSH og Grundfirðingar almennt munu taka vel á móti gestum á unglingalandsmótinu árið 2010 og tryggja að mótið verði glæsilegt í alla staði.

Eldri borgarar athugið

Félag eldri borgara minnir á heimasíðu félagsins á http://ellismellir.123.is/

Dagur leikskólans

  6. febrúar er dagur leikskólans, en þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín.   Hér í Leikskólanum Sólvöllum er mikið um að vera í febrúar mánuði fyrir utan venjulegt starf, elstu nemendurnir fara í heimsókir í Bókasafnið einu sinni í viku, nemendur úr Framsveitinni fara í heimsókn í Fellaskjól, það er fjólublárdagur, vasaljósadagur (myrkurdagur), mömmu- og ömmudagur í tilefni konudagsins, þá eru viðburðir tengdir Bollu-, Sprengi- og Öskudegi, tannlæknirinn kemur í heimsókn í Framsveitina og Þorrablótið verður haldið miðvikudaginn 11. febrúar og hefst með skemmtiatriðum nemenda (f. 2003-2006) kl. 10:30 í Samkomuhúsinu og síðan verður Þorramatur í leikskólanum.  

Skrítnar stelpur á kvikmyndahátíð í Grundarfirði

Frétt á vísi.is: Listahópurinn Weird Girls Project verður áberandi á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni Northern Wave Festival sem verður haldin í Grundarfirði í annað sinn í lok febrúar.

Í skoðun er að fresta um ár unglingalandsmóti í Grundarfirði

Frétt á vef Skessuhorns: Forsvarsmenn Grundarfjarðarbæjar og stjórn Héraðssambands Snæfellsness- og Hnappadalssýslu hafa ákveðið að óska eftir því við stjórn UMFÍ að unglingalandsmót sem halda á í Grundarfirði í sumar, verði frestað um eitt ár, ef bæjarfélag og héraðssamband sem eru með tilbúna aðstöðu væru tilbúin að hlaupa í skarðið og halda mótið í sumar. Guðmundur Ingi Gunnlaugsson bæjarstjóri í Grundarfirði segir að vegna gríðarlegra kostnaðarhækkana síðasta árið og efnahagsástandsins í landinu, væri það betra fyrir bæjarfélagið allra hluta vegna að fá eitt ár í viðbót til að kljúfa kostnaðaraukann og fjármagna framkvæmdir. Ef stjórn UMFÍ samþykkir ekki frestun og aðrir staðir eru ekki tilbúnir að halda mótið í sumar, muni Grundfirðingar gera það með glæsibrag eins og ekkert hafi í skorist. 

Bæna og kyrrðarstund

Bæna og kyrrðarstund sem átti að vera í Grundarfjarðarkirkju í dag miðvikudaginn 4 febrúar fellur niður. 

eXtra Small & eXtra Smart gallerí

Þann 6. febrúar  n.k. kl. 16:00 mun ég opna gallerí að Fellabrekku 3 í Grundarfirði. Til sölu  og sýnis eru handhnýttir skartgripir ásamt annarri  hönnun.  Hvergi á Íslandi er að finna sambærilegar vörur.  Í fyrstu opnunarviku verða allar vörur á 15% kynningarafslætti.  Hér er frábært tækifæri að finna gjafir fyrir hin ýmsu tilefni, t.d. konudag, bóndadag, afmæli, fermingar o.fl. Opið verður alla virka daga frá kl. 15:00 – 18:00 eða eftir samkomulagi. Vefsíðan  www.exsesgallery.com mun verða opnuð fljótlega. Verið velkomin að koma og skoða úrvalið.  Ela Elísson      sími: 438 6903 eða 845 2375.  

Ritgerð Önnu Júníu Kjartansdóttur í verkefninu "Unga fólkið og heimabyggðin"

Eins og áður hefur verið greint frá vann Anna Júnía Kjartansdóttir til verðlauna fyrir ritgerð sína í ritgerðaflokknum "Unga fólkið og heimabyggðin".  Samkeppnin var haldin á vegum samtakanna Landsbyggðavinir í Reykjavík og nágrenni.  Hér er ritgerð Önnu Júníu.

Lausaganga hunda í Grundarfirði

Að gefnu tilefni er fólk vinsamlegast beðið að passa það að hundar séu bundnir og gangi alls ekki lausir um bæinn. Fjöldi fólks er hrætt við hunda og eru hundaeigendur beðnir að sýna því tillitsemi.  

Handverkshópurinn

Handverkshópurinn vill minna á að það verður mæting í kvöld klukkan 20:00 í herberginu við hliðina á bókasafninu.