Sólardagar standa yfir í FSN þessa dagana

  Hófust þeir á þriðjudag með undankeppni fyrir söngvakeppni framhaldsskólanna. Gólið er hún kölluð, atriðin voru sjö hvert öðru betra og kynnarnir Jón Sindri og Gústaf Alex hinir hressustu.  Vinningsatriðið í ár var fallegur söngur Lilju Margrétar Riedel frá Stykkishólmi en hún söng lagið Autumn leaves  með undirspili  Ólafar Rutar á þverflautu og Þorkels Mána á flygil.      

Ný gönguleið

  Verið er að vinna að hugmynd um að merkja gönguleið frá Ljósufjöllum að Snæfellsjökli og á leiðin að liggja eftir fjallshryggnum. Boðað verður til kynningarfundar á næstu vikum þar sem hugmyndin verður kynnt fyrir áhugasömum. Í tengslum við þetta verkefni er líklegt að stofnað verði ferðafélag sem myndi vinna að uppbyggingu á gönguleiðum á svæðinu.   Mynd: Guðjón Elísson  

Leiðsögunám í bígerð

Undanfarið hefur vaxið áhugi á að setja í gang leiðsögunám á Snæfellsnesi. Mikil umræða hefur verið á milli ýmissa aðila, opinberra og í einkageiranum og nú er útlit fyrir að það sé að verða að veruleika. Símenntunarmiðstöðin er að vinna í málinu og hægt að reikna með að boðið verði upp á námskeiðið næsta haust. Það er til mikils að vinna því það hefur sýnt sig að námskeið af þessu tagi auka ekki bara tekjumöguleika þeirra sem þátt taka heldur efla almennt vitund fólks um svæðið, bæði hvað varðar náttúruna og söguna. Slíkt námskeið hefur einnig aukið vægi á þessu svæði vegna komu skemmtiferðaskipa.  

Miðstöð opnuð í verkalýðshúsinu

Til að bregðast við þeim miklu breytingum í efnahagsmálum sem nú blasa við hefur verið ákveðið að opna miðstöð í Grundarfirði fyrir þá sem leita nýrra tækifæra í námi eða vinnu. Verkefnið er unnið í samvinnu Verkalýðsfélags Snæfellinga, Grundarfjarðarbæjar og Atvinnuráðgjafar Vesturlands. Húsnæði miðstöðvarinnar verður á Borgarbraut 2, neðri hæð, en þar er einnig aðstaða verkalýðsfélagsins. Í upphafi verður opið hús frá 9:00 til 11:00, þar sem kjörið er að koma saman í spjall og kaffisopa.  

Kvikmyndahátíðin nálgast

  Dögg Mósesdóttir, skipuleggjandi kvikmyndahátíðarinnar Northern Wave, var í viðtali á Rás 1 í þættinum Kviku síðastliðinn laugardag. Þeir sem vilja hlusta á þetta fína viðtal geta gert það á ruv.is undir Kviku.

112 í grunnskólanum

    Í tilefni af 112 deginum heimsóttu Slökkvilið Grundarfjarðar, sjúkraflutningamenn og björgunarsveitin Klakkur grunnskólann og fræddu nemendur um neyðarþjónustu og starfsemi sína. Einnig voru veitt verðlaun fyrir eldvarnargetraun sem lögð var fyrir 3. bekk um land allt í eldvarnarvikunni í desember. Einn Snæfellingur fékk verðlaun en á landinu öllu voru aðeins  33 verðlaunahafar. Hinn eldklári verðlaunahafi heitir Gunnar Ingi Gunnarsson og afhenti slökkviliðsstjóri honum verðlaunin fyrir hönd Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Í verðlaun hlaut Gunnar viðurkenningarskjal, reykskynjara, 8.000 kr. inneign á bankabók og bíómiða.  

Þorrinn blótaður í leikskólanum

Í tilefni þorrans héldu leikskólabörnin skemmtun í Samkomuhúsinu í dag og buðu fjölskyldum sínum og  1. bekk grunnskólans að horfa á. Þar sýndi hver árgangur ( 2003 – 2006) sitt atriði, s.s frumsamið leikrit, nokkur  söngatriði og tískusýningu.  Eftir  frábær og fjörug skemmtiatriði buðu börnin gestum sínum með sér yfir í leikskólann þar sem þorramatur var á borðum.    

Eyrarrósin afhent

Af vef skessuhorns.   Eyrarrósin, sérstök viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni var afhent á Bessastöðum í gær. Það var Landnámssetur Íslands í Borgarnesi sem hlaut verðlaunin að þessu sinni og tóku hjónin Sigríður Margrét Guðmundsdóttir og Kjartan Ragnarsson við þeim. Auk Landnámssetursins var Eyrbyggja – Sögumiðstöð í Grundarfirði tilnefnt til verðlaunanna og Skaftfell, miðstöð myndlistar á Austurlandi. Verðlaunin veitti Dorrit Moussaieff forsetafrú en hún er jafnframt verndari Eyrarrósarinnar. Landnámssetrið fékk að launum fjárstyrk að upphæð1,5 milljón króna og verðlaunagrip eftir Steinunni Þórarinsdóttur.   Tilnefndir ásamt Dorrit forsetafrú.

Eyrbyggja tilnefnd til Eyrarrósarinnar

Ingi Hans Jónsson, forstöðumaður Sögumiðstöðvarinnar í Grundarfirði, fékk símtal í vikunni þar sem honum var greint frá því að umsókn hans um Eyrarrósina væri meðal þriggja verkefna sem valin hefðu verið í tilnefningu til verðlaunanna. Hefur stjórn Sögumiðstöðvar verið boðuð til Bessastaða í dag klukkan 16.00 en þar verður tilkynnt um hvaða verkefni fái Eyrarrósina. 

112-dagurinn 2009 – öryggi barna og ungmenna

Dagur neyðarnúmersins, 112-dagurinn, er haldinn um allt land miðvikudaginn 11. febrúar. Að þessu sinni leggja samstarfsaðilarnir áherslu á að vekja athygli grunnskólabarna á því víðtæka öryggis- og velferðarneti sem þau hafa aðgang að í gegnum neyðarnúmerið ef eitthvað bjátar á. Börnunum er jafnframt bent á að þau geta sjálf gert ýmislegt til að stuðla að eigin öryggi og annarra, meðal annars með þátttöku í starfi sjálfboðaliðasamtaka. Viðbragðsaðilar heimsækja grunnskóla um allt land og fræða nemendur um neyðarnúmerið og starfsemi sína.   Að venju verður skyndihjálparmaður Rauða krossins útnefndur á 112-daginn og veitt verða vegleg verðlaun í Eldvarnagetrauninni.