Grundapol

  Vináttufélag Grundafjarðar í Paimpol hefur komið upp heimasíðu um verkefni félagsins og kynningu á Grundarfirði.   Heimasíðan er enn sem komið er eingöngu á frönsku en félagið hefur hug á að hafa síðuna einnig á ensku.   Slóð heimasíðunnar er:  http://www.grundapol.fr 

Sögumiðstöðin opnuð á ný

Sá gleðilegi atburður stendur nú fyrir dyrum laugardaginn 9. júní n.k. að Sögumiðstöðin hefji starfsemi á ný.  Undirbúningur að opnuninni hefur staðið yfir um hríð.  Nokkrar endurbætur á aðstöðu, aðgengi og í Gestastofu hafa verið gerðar innanhúss.  Einnig stendur fyrir dyrum að endurbæta aðstöðuna á lóð Sögumiðstöðvarinnar.  Eyrbyggja - Sögumiðstöð er hjarta og kennileiti í miðkjarna bæjarins.  Starfsemi Sögumiðstöðvarinnar felst í rekstri upplýsingamiðstöðvar fyrir ferðamenn, rekstri Bæringsstofu og ljómyndasafns Bærings Cecilssonar, sögusýningu og í sumar er stefnt að opnun "Þórðarbúðar".  Þórðarbúð verður í minningu verslunar Þórðar Pálssonar sem hann rak í Grundarfirði fyrir nokkrum áratugum, m.a. með sælgæti leikföng og margt fleira.  Sögumiðstöðin verður opin daglega í sumar frá kl. 10 - 18.  Hér er grein eftir Björgu Ágústsdóttur um "nýtt upphaf" sögumiðstöðvar í Grundarfirði.

Sóknarfæri í Evrópusjóði

Námskeið um möguleika íslenskra fyrirtækja til að sækja um styrki úr evrópskum rannsókna- og þróunaráætlunum verður haldið þriðjudaginn 12. júní kl. 9-16. Innan 7. rammaáætlunar ESB eru undiráætlanir sérsniðnar að þörfum smærri fyrirtækja sem munu útdeila 467,5 milljörðum íslenskra króna í styrki á næstu árum. Fyrirlesari er Dr. Sigurður G. Bogason, framkvæmdastjóri MarkMar ehf. (www.markmar.is) en hann hefur mikla reynslu af styrkjáætlunum Evrópusambandsins bæði sem vísindafulltrúi hjá Framkvæmdastjórn ESB og umsækjandi styrkja. Námskeiðsgjald 20.000 krónur og innifalið er námskeiðsgögn, kaffi og hádegismatur. Skráning á netfangið rannis@rannis.is eða í síma 515 5800 í síðasta lagi föstudaginn 8. júní. Nánari dagskrá (PDF snið)

Umsókn um unglingalandsmót UMFÍ

Héraðssamband Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu (HSH) sendi frá sér umsókn í samstarfi við Grundarfjarðarbæ um að unglingalandsmót UMFÍ verði haldið í Grundarfirði árið 2009.  Sótt var um að árið 2010 kæmi til greina ef árið 2009 félli ekki í hlut Grundarfjarðar.  Á árinu 2006 var fyrst send inn umsókn frá Grundarfjarðarbæ um unglingalandsmótið 2009.  Mikill áhugi er fyrir því að mótið verði haldið hér í Grundarfirði og m.a. tekur væntanleg uppbygging íþróttamannvirkja á staðnum mið af þessum möguleika.  Haldið verður áfram að sækja um þetta þangað til árangur næst og mótið verður haldið hér, vonandi þegar árið 2009. 

LANDAÐUR AFLI Í GRUNDARFJARÐARHÖFN

Maí   2007   SAMANBURÐUR   Maí 2004 til 2006. Hér fyrir neðan er aflinn sundurskiptur eftir tegundum öll árin .    Tegundir           2007                2006                2005                2004   Þorskur          580.339 Kg    446.889 Kg    499.597 Kg   390.344 Kg Ýsa                551.247 Kg    349.470 Kg     475.178 Kg    89.201.Kg Karfi                 74.785 Kg    534.171 Kg    658.480 Kg   233.769 Kg Steinbítur         15.110 Kg      11.364 Kg       31.476Kg     9.869   Kg Ufsi                  67.910 Kg      49.034 Kg     102.261 Kg     54.318Kg Beitukóngur    25.573 Kg      39.485 Kg       49.809 Kg              0 Kg Rækja           223.172 Kg    204.613 Kg     163.342 Kg     64.996Kg Langa                7.603 Kg      11.816 Kg      3.946   Kg       2.547 Kg Keila                  5.796 Kg        2.792 Kg      3.007   Kg       2.970 Kg Gámafiskur    374.439 Kg    663.021 Kg    475.833 Kg   298.482 Kg Aðrar tegundir 83.911 Kg     69.293 Kg      67.743.Kg    25.013 Kg   Samtals   2.009.885 Kg  2.381.948 Kg 2.530.672 Kg 1.171.509 Kg   Það sem stendur á bak við Gámafisk er að stærstum hluta Ýsa - Steinbítur og Þorskur HG

Framhalds aðalfundur.

Aðalfundi UMFG verður fram haldið í kvöld. Aðalfundinum sem haldinn var 17.maí var frestað þegar kom að liðnum kosning stjórnar það sem ekki tókst að manna nýja stjórn. Fundinum er því framhaldið í kvöld kl 20:00 í Samkomuhúsinu. Foreldrar eru hvattir til að mæta og taka þátt í starfi barna sinna.

Strákarnir okkar féllu úr Visa bikarnum

 Lið UMFG lék við lið Aftureldingará Varmárvelli föstudaginn 1. júní sl.  Skemmst er frá að segja að okkar lið tapaði nokkuð stórt, fékk á sig tíu mörk en skoraði aðeins eitt hjá mótherjunum.  Liðið er því fallið úr bikarkeppninni að þessu sinni en við segjum að það gangi bara betur næst.

Útskrift í Leikskólanum

  Miðvikudaginn 30. maí sl. var útskrift í Leikskólanum Sólvöllum. Í ár eru útskrifaðir 8 nemendur. Athöfnin fór fram á Drekadeildinni þar sem útskriftarnemendur mættu ásamt foreldrum sínum og öðrum ættingjum. Krakkarnir settu upp hatta sem þau höfðu búið til, foreldrafélagið gaf þeim rós og þeim var afhent ferlimappan sín. Eftir athöfnina á Drekadeildinni var farið í skrúðgöngu út á Kaffi 59 þar sem flatbökuveisla beið þeirra. Eftir helgi fara þau í útskriftaferð frá Kl. 9:00 til 19:00.  

Sjómannadagurinn 2007

Dagskrá:   Föstudagur 1 júní kl 18:00 Sjómannadagsmót G.Run í golfi á Bárarvelli   Laugardagur 2 júní Kl 11:00 Messa í Grundarfjarðarkirkju Kl 13:30 Hátíðarhöld á bryggjunni. Keppni í ýmsum greinum á milli áhafna, keppt verður um nýjan verðlaunagrip, andlitsmálning fyrir börnin. Hvað þarf marga krakka til að leggja 3 sjómenn í reiptog?? Kl 16:30 Knattspyrnuleikur á Grundarfjarðarvelli milli áhafna Þorvarðar Lárussonur og Hrings.   Sunnudagur 3 júní Kl 14:00 Skemmtisigling um Grundarfjörð Afmæliskaffi Kvenfélagsins Gleym mér ei í Samkomuhúsi Grundafjarðar kl. 15-17.

Framlengjum hreinsunardagana

Allir með hreinar lóðir fyrir 17. júní   Ákveðið hefur verið að framlengja hreinsunardagana til 15. júní n.k.  Það er gert til þess að engir sem þurfa að losna við ónýta muni og annað drasl, missi af tækifæri til þess að það verði sótt þeim að kostnaðarlausu heim að lóðarmörkum.  Áhaldahúsið mun á þessum tíma fram að 17. júní sækja dót og drasl heim að lóðarmörkum.  Hafið samband við bæjarverkstjórann í síma 691-4343.   Opið er alla virka daga í gámastöðinni frá kl. 16.30 - kl. 18.00.   Drífum í að hreinsa allt drasl í burtu fyrir 17. júní.   Markmiðið er að Grundarfjörður verði til fyrirmyndar í umgengni og allir þurfa að leggja sitt af mörkum.   Heilbrigðisfulltrúi Vesturlands og skipulags- og byggingafulltrúi Grundarfjarðar fóru um Grundarfjarðarbæ fyrir nokkrum dögum og tóku myndir og skrifuðu punkta hjá sér um drasl og fleira við athafnasvæði og á lóðum fyrirtækja.  Þeir sem í hlut eiga mega eiga von á bréfi frá þessum embættum um málið innan tíðar.  Nú er um að gera að vera á undan með tiltektina þannig að þessi embætti þurfi ekkert að aðhafast frekar.   Bæjarstjóri.