Skólastarf í Fjölbrautaskóla Snæfellinga er nú komið á fullt skrið. Um 260 nemendur eru skráðir í skólann, en þar af eru tuttugu nemendur úr grunnskólum á svæðinu sem stunda nám í einum eða tveimur áföngum og rúmlega tuttugu vélstjórnarnemendur sem stunda vélavarðanám. Síðan er stór hópur eldri nemenda, eða um 60 nemendur, sem stundar hlutanám í skólanum. Stærsti hópurinn er þó nemendur á framhaldsskólaaldri sem stundar fullt nám í skólanum.

 

 Gaman er að skoða þróun nemendafjöldans frá stofnun skólans. Fjöldi nemenda hefur aukist á hverri önn, frá 132 nemendum á haustönn 2004 og upp í 260 nemendur nú á haustönn 2006.

 

Skólinn var settur 22. ágúst síðastliðinn og hefur skólastarf farið vel af stað. Tvö stór og spennandi þróunarverkefni setja svip á haustönnina. Annars vegar er um að ræða samþættingu íslensku, sögu, samfélagsgreina, margmiðlunar og listgreina og er verkefnið unnið í samvinnu við aðra norræna skóla. Nemendur og kennarar munu skiptast á heimsóknum og vinna verkefni tengd  sögum og samfélagi á hverjum stað fyrir sig. Í hinu verkefninu er kennsluaðferðum í stærðfræði gjörbreytt og í stað getuskiptra námshópa kemur einstaklingsmiðað fyrirkomulag þar sem nemendur búa sér til áætlun í upphafi annar, stjórna hraðanum sjálfir og ákveða hversu margar einingar þeir taka á hverri önn.

 

Nýnemar voru vígðir inn í skólalífið á táknrænan hátt fimmtudaginn 7. september. Eftir ýmsar uppákomur og fjör í skólanum um morguninn þar sem busum var kennd viðeigandi hegðun var gengið með hópinn um bæinn og endað upp í gili þar sem busar gæddu sér á einum hákarlsbita, fóru í gegnum skemmtilega þrautabraut og var að lokum boðið í grillveislu.