Í Grunnskóla Grundarfjarðar eru nú 175 nemendur í 10 bekkjardeildum en stærri hópum er skipt eftir þörfum. Alls 34 starfsmenn starfa við skólann í vetur, 22 kennarar og 12 aðrir starfsmenn (s.s. stuðningsfulltrúar, skólaliðar, ritari, þroskaþjálfi, starfsmaður bókasafns og skólastjóri). Þann 1. nóvember nk. byrjar starfsdeild fyrir nemendur í 9.-10. bekk. Þar verða nemendur sem hneigjast fremur til verknáms en bóknáms en ákveðnar forsendur þurfa að liggja fyrir til þess að fá aðgang að starfsdeild.

 

Nýja smíðastofan verður tekin í notkun á næstu dögum og smíði/tæknimennt verður kennd í 1.-10. bekk í vetur. Stofan verður þó ekki fullkláruð fyrr en síðar í haust.

 

Tónmennt er nú kennd í öllum bekkjum frá 1.-8. bekk og boðið er upp á tónmennt/tölvur sem valgrein í 9.-10. bekk.  Áður hefur einungis verið haldið úti tónmenntakennslu í yngstu bekkjum.

 

Umsjón með bekkjum/nemendum er nú breytt frá því sem áður var.  Nú eru allir kennarar umsjónarkennarar.  Einn umsjónarkennari er með fyrstu fjórum bekkjum en frá 5.-10. bekk skiptast kennarar niður á nemendur þannig að hver er með um 8 nemendur í umsjón og þá eru allt að þrír umsjónarkennarar í bekk.  Með þessu fyrirkomulagi á að skapa betri tengsl milli heimila og skóla og tryggja betra upplýsingaflæði og samskipti.