- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Síðastliðinn fimmtudag var mikið um dýrðir í Grundarfirði. Dagurinn hófst með því að skemmtiferðaskipið Spirit of Adventure lagðist að bryggju. Gestirnir voru boðnir velkomnir með ljúfum tónum frá Lúðrasveit Tónlistarskóla Grundarfjarðar. Samtímis var opnaður í fyrsta skiptið markaðurinn Komdu í land. Þar voru samankomnir aðilar af öllu Snæfellsnesi að bjóða vörur sínar og framleiðslu til sölu. Markaður þessi er framtak Steinunnar Hansdóttur og tilraun til að efla verðmætasköpun við heimsóknir skemmtiferðaskipa til Grundarfjarðar. Ekki er hægt að segja annað en að sú tilraun hafi tekist með prýði og þeir 14 aðilar sem tóku þátt voru ánægðir með árangurinn.
Markaðurinn verður opinn í sumar þegar skipakomur eru og jafnvel einnig á tyllidögum. Einnig var kynntur forsmekkur af nýju galleríi, „Gallerí Kind“. Það verður opnað nú á næstu dögum en fjölmargir sóttu það heim á fimmtudaginn. Þar var m.a. sýnt vinnsluferli íslensku ullarinnar og vakti það mikinn áhuga gestanna. Grundarfjarðarhöfn hleypti af stokkunum enn öðru verkefni og hélt móttökuhópur hafnarinnar fyrstu sýningu sumarsins við góðar undirtektir. Sýningin var við Sögumiðstöðina og samanstóð af dans og tónlistaratriðum. Fyrir utan skipulega dagskrá nýttu gestirnir daginn í að skoða bæinn og sveitina í kring. Nýmerktar gönguleiðir voru gengnar og einnig voru klassísk kennileiti s.s. Kirkjufell og Grundarfoss vinsæl, sem og Grundarfjarðarkirkja og safnið í Sögumiðstöðinni. Þegar skipið hélt úr höfn seinnipartinn fór þar fólk með góðar minningar um skemmtilegan dag á fallegum stað.