- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Hátíðarhöld á sjómannadaginn tókust einkar vel í ár. Forskot var tekið á sæluna á föstudeginum með golfmóti Guðmundar Runólfssonar. 63 mættu til leiks og skemmtu menn sér hið besta. Á laugardeginum lék veðrið við viðstadda. Dagskráin hófst með siglingu Hrings og Farsæls. Þegar komið var í land tók við grillveisla á höfninni við undirleik lúðrasveitarinnar og ýmsar skemmtilegar uppákomur voru í boði.
Liðakeppni var á milli áhafna og kepptu 7 áhafnir og einn saumaklúbbur í karastöflun, ísmokstri, bobbingadrætti og flotgallafimi. Áhöfnin af Farsæl bar sigur úr býtum enda mættu þeir vel hvíldir til leiks. Því næst var haldið upp á íþróttavöll þar sem fram fór landsleikur í knattspyrnu á milli pólskra og íslenskra Grundfirðinga og fór leikurinn 7-3, Pólverjum í vil. Þess ber að geta að umboðsmaður pólska liðsins keypti, þegar fimm mínútur voru liðnar af leiknum, helsta sóknarmann íslenska liðsins yfir í það pólska. Kaupverðið var einn kassi af bjór. Um kvöldið var ball með Á móti sól sem fór mjög vel fram. Á sunnudeginum var hátíðarmessa í Grundarfjarðarkirkju. Sjómannadagsráð sæmdi hjónin Móses Geirmundsson og Dóru Haraldsdóttur heiðursmerki sjómannadagsins fyrir ötul störf í sjávarútvegi um margra ára skeið.
Sjómannadagsráð vill þakka Grundfirðingum sérstaklega fyrir góða þátttöku.