Laust starf við Grunnskóla Grundarfjarðar

Laust er til umsóknar staða skólaliða í rúmlega 60% starf við Grunnskóla Grundarfjarðar. Í starfinu felast meðal annars ræstingar, matarskömmtun og vinna með nemendum. Vinnutíminn er frá klukkan 8:00 -13:00. Laun eru greidd samkvæmt kjarasamningum. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.   Vinsamlegast hafið samband við skólastjóra Gerði Ólínu Steinþórsdóttur í síma 430-8550 eða 822-5630.    

Auglýsing um samþykkt Svæðisskipulags Snæfellsness 2014-2026

Svæðisskipulagsnefnd fimm sveitarfélaga á Snæfellsnesi samþykkti þann 14. nóvember 2014 tillögu að Svæðisskipulagi Snæfellsness 2014-2026.   Í svæðisskipulaginu, sem ber yfirskriftina „Andi Snæfellsness - auðlind til sóknar“, er sett fram stefna um byggðar- og atvinnuþróun á Snæfellsnesi sem miðar að því að atvinnulífið, þekkingargeirinn og samfélagið nýti sér í auknum mæli náttúru- og menningarauð Snæfellsness og að skipulag og mótun byggðar og umhverfis taki mið af honum.   Tillagan var auglýst og lá frammi til kynningar frá 4. september til 20. október 2014. Engar athugasemdir bárust en ábendingar frá þremur aðilum urðu tilefni minniháttar breytinga á tillögunni. Nefndin sendi sveitarstjórnunum tillögu sína að svæðisskipulagi þannig breytta, ásamt ábendingum og umsögn sinni um þær. Tillagan var samþykkt af sveitarstjórnum Eyja- og Miklaholtshrepps, Grundarfjarðarbæjar, Helgafellssveitar, Snæfellsbæjar og Stykkishólmsbæjar í desember 2014. Nefndin hefur afgreitt svæðisskipulagstillöguna til Skipulagsstofnunar til staðfestingar og svarað ábendingum sem bárust. Svæðisskipulagið öðlast gildi þegar afgreiðslu Skipulagsstofnunar lýkur og skipulagið hefur verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda. Skipulagið ásamt fundargerð svæðisskipulagsnefndar, þar sem ábendingar voru afgreiddar, má skoða á vefnum snaefellsnes.is/svaedisskipulag   Svæðisskipulagsnefnd sveitarfélaganna á Snæfellsnesi    

Tveir nemendur grunnskólans bera sigur úr bítum

Í vetur hafa nemendur í 7. – 10. bekk grunnskólans unnið verkefni á landsvísu sem heitir Sköpunargleði – Heimabyggðin mín: Nýsköpun, heilbrigði og forvarnir. Markmið verkefnisins var að hvetja ungt fólk til að hugsa um heimabyggð sína út frá þeim tækifærum sem þar bjóðast, auk þess að vera um leið þroskandi og skemmtileg viðbót við hefðbundið skólanám. Þær María Margrét Káradóttir og Tanja Lilja Jónsdóttir í 7. bekk hlutu verðlaun fyrir sínar ritgerðir og tóku á móti þeim við hátíðlega athöfn í Háskólanum í Reykjavík um nýliðina helgi. Grundarfjarðarbær óskar Maríu Margréti, Tönju Lilju og umsjónakennara þeirra, Unni Birnu Þórhallsdóttur, hjartanlega til hamingju með verðlaunin.    

Hundahreinsun

Dýralæknirinn verður í áhaldahúsinu miðvikudaginn 21. janúar næstkomandi kl. 12:30-16:30. Öllum hundeigendum er skylt að mæta með hunda sína.    

Fjölskyldubingó eldri borgara

Fjölskyldubingó er á morgun laugardaginn 17. janúar kl.15:00 í samkomuhúsinu.   Allir velkomnir   

Ljósmyndasamkeppni Grundarfjarðar 2015

Grundarfjarðarbær efnir á ný til ljósmyndasamkeppni árið 2015. Þetta er í sjötta sinn sem bærinn blæs til ljósmyndasamkeppni og hefur þótt takast vel til. Á þennan hátt hefur bærinn fengið nýjar myndir til birtingar og þátttakendur sínar myndir birtar.   Myndefni samkeppninnar í ár er Gestir og gangandi. Myndirnar verða að vera teknar innan sveitarfélagsmarka. Samkeppnin stendur til 30. september 2015 og má hver þátttakandi senda inn að hámarki fimm myndir.  

Tendrað í brennunni laugardaginn 10. janúar

  Á morgun, laugardaginn 10. janúar, verður tendrað í seinkaðri þrettándabrennu kl. 18:00 í Hrafnkellsstaðabotni í Kolgrafafirði. Björgunarsveitin okkar verður með flugeldasýningu og nokkuð víst að álfar og aðrar kynjaverur verði á staðnum. Sjáumst öll hress og kát.    

Hlutastarf í íþróttahúsi

Baðvörður hefur umsjón með baðvörslu í karlaklefa íþróttahúss ásamt þrifum.   Vinnutími er frá kl. 16:00 mánudaga til fimmtudaga, frá 2½ til 4 ½ klst. á dag. Jafnframt felst starfið í vinnu annan hvern sunnudag.   Nánari upplýsingar veitir Aðalsteinn Jósepsson, forstöðumaður íþróttamannvirkja í síma 430 8564 eða á netfangi steini@grundarfjordur.is   Launakjör eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Starfsmannafélags Dala- og Snæfellsness (SDS).   Umsóknarfrestur er til 16. janúar 2015. Ráðið er í starfið fljótlega. Umsóknareyðublöð er að finna á vefsíðu Grundarfjarðarbæjar, www.grundarfjordur.is   Sækja um starf í íþróttahúsi

Íbúar Grundarfjarðar orðnir 900 talsins

Gleðilegt er til þess að vita að Grundfirðingum hefur fjölgað um liðlega 3% frá upphafi ársins 2014. Alls voru Grundfirðingar 872 þann 1. desember 2013, en í upphafi ársins 2015 eru þeir orðnir 900.  

Tilkynning frá björgunarsveitinni Klakk

Um leið og við óskum öllum vinum nær og fjær gleðilegs nýs árs auglýsum við opnun á flugeldasölunni hjá okkur. Hún verður opin frá kl. 14:00 - 17:30 í dag, þettándann, í húsi Klakks að vanda.   Bestu kveðjur, félagar í björgunarsveitinni Klakk Grundarfriði