Ræstingastarf – tvö störf

Grundarfjarðarbær óskar eftir að ráða sem fyrst starfsmenn til að sinna ræstingu á tveimur af húseignum bæjarins. Um er að ræða 20 klst. á mánuði í annarri eigninni en 26 klst. á mánuði í hinni. Vinnutími er sveigjanlegur. Sami einstaklingur getur sinnt báðum störfunum.   Launakjör eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Starfsmannafélags Dala- og Snæfellsness (SDS).   Nánari upplýsingar eru veittar á bæjarskrifstofu í síma 430 8500 eða á netfangi grundarfjordur@grundarfjordur.is   Umsóknarfrestur er til 30. nóvember nk.   Sækja um ræstingastarf  

Bókun bæjarráðs Grundarfjarðar vegna FSN

Á fundi bæjarráðs Grundarfjarðar 18. nóv. sl., var fjallað um málefni Fjölbrautaskóla Snæfellinga og fyrirhugaðan niðurskurð fjárveitinga til skólans í fjárlagafrumvarpi 2015.   Fundarmenn lýstu yfir miklum áhyggjum af þróun mála í þessum efnum. Alger samstaða var um það á fundinum að kalla eftir leiðréttingu á fjárveitingum til skólans þannig að unnt yrði að halda uppi sambærilegri kennslu í skólanum árið 2015, eins og verið hefur.   Svofelld bókun var samþykkt samhljóða í bæjaráði:   „Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2015 er gert ráð fyrir 18,4% niðurskurði á framlögum til Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Niðurskurðurinn er skýrður á grunni þess að ekki verði greitt rekstrarframlag vegna nemenda sem eru 25 ára og eldri og hið sama verði gert vegna nemenda sem stunda fjarnám.   Gangi þessar hugmyndir eftir er ljóst að það mun skaða námsframboð verulega og þar með gæði skólans. Fyrirhugaðar breytingar ógna stöðu sveitarfélaga á Snæfellsnesi og skerða lífsgæði íbúa.   Bæjarráð mótmælir harðlega þessum áformum ríkisstjórnarinnar. Gerð er sú krafa að niðurskurður þessi verði dreginn til baka svo unnt verði að reka skólann áfram í þeirri mynd sem verið hefur.“  

Þrír leikmenn UMFG kvenna í blaki í landsliðinu

  Ljósmynd:Tómas Freyr Kristjánsson   Í U-17 ára landslið stúlkna voru valdar Aldís Ásgeirsdóttir, Svana Björk Steinarsdóttir og Anna Kara Eiríksdóttir úr UMFG. Þær fóru til Kettering í Englandi á dögunum og stóðu sig vel.   Aldís Ásgeirsdóttir uppspilari og fyrirliði UMFG kvenna í blaki var einnig valin í U-19 ára landslið stúlkna og fór hún til Ikast í Danmörku að keppa á dögunum.   Við óskum þessum duglegu stúlkum hjartanlega til hamingju. Grundfirðingar geta verið stoltir af þessum efnilegu stúlkum.   Þess má geta að lið UMFG kvenna er í 2 sæti í 1.deild með 10 stig, eftir 5 leiki, sem er glæsilegur árangur. 1. sæti Afturelding B 13 stig, eftir 5 leiki.2. sætir UMFG 10 stig, eftir 5 leiki.3. sæti HK B 9 stig, eftir 5 leiki. Áfram UMFG   Næsti heimaleikur UMFG kvenna í blaki verður 4. desember. FYLLUM ÍÞRÓTTAHÚSIÐ!   Þjálfarar UMFG kvenna í blaki: Guðrún Jóna Jósepsdóttir Anna María Reynisdóttir  

Nýtt bókasafn Grunnskóla Grundarfjarðar tekið í notkun

Í tilefni af Degi íslenskrar tungu var nýtt bókasafn formlega opnað í Grunnskóla Grundarfjarðar. Nemendur úr öllum bekkjum komu á safnið og fögnuðu því að nú geta allir notið þess að taka sér bækur og eiga notalega stund við lestur og nám. Sunna Njálsdóttir forstöðumaður bóksafns Grundarfjarðar notaði tækifærið og tilkynnti hverjir hefðu verið dregnir út í vali á bestu barnabókunum ársins 2013 í Grundarfirði. Dregið var úr innsendum seðlum og fengu Daniel Emmanuel K. Kwakye í fyrsta bekk og Anita Sól Valdimarsdóttir í 6. bekk glaðning fyrir þátttöku. Þakkaði hún öllum sem tóku þátt. 

5 ára afmæli!

Vinahúsið á afmæli miðvikudaginn 19. nóvember. Í tilefni dagsins verður opið hús í Sögumiðstöðinni frá kl.16-18. Kynning á starfsemi Vinahússins í Bæringsstofu. Kaffi, gos og veitingar.   Verið hjarnalega velkomin.   Vinahúsateymið Rauði krossinn Grundarfirði.  

Bókaverðlaun barnanna 2014

  Val á bestu barnabókunum í Grundarfirði var kynnt á nýju bókasafni í Grunnskóla Grundarfjarðar í morgun. Dregið var úr innsendum seðlum og fengu Daniel Emmanuel K. Kwakye í fyrsta bekk og Anita Sól Valdimarsdóttir í 6. bekk glaðning fyrir þátttöku í vali bestu bókar ársins 2013. Öllum sem tóku þátt er þakkað fyrir góða þátttöku. Sjá fréttatilkynningu.

Hundaeigendur athugið

Við minnum hundaeigendur vinsamlega á að hirða upp hundaskít eftir sína hunda.   Hreinn bær = betri bær!  

Augnlæknir og háls-nef og eyrnalæknir

Guðrún Guðmundsdóttir augnlæknir verður með móttöku á heilsugæslustöðinni miðvikudaginn 26. nóvember.   þórir Bergmundsson háls,- nef og eyrnalæknir verður með móttöku á Heilsugæslunni Grundarfirði 5. desember.    

Ræstingastarf

Grundarfjarðarbær óskar eftir að ráða sem fyrst starfsmann til að sinna ræstingu á einni af húseignum bæjarins. Um er að ræða 2 klst. á viku. Vinnutími er sveigjanlegur.   Launakjör eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Starfsmannafélags Dala- og Snæfellsness (SDS).   Nánari upplýsingar eru veittar á bæjarskrifstofu í síma 430 8500 eða á netfangi grundarfjordur@grundarfjordur.is   Umsóknarfrestur er til 20. nóvember nk.   Umsóknareyðublað