- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Svæðisskipulagsnefnd fimm sveitarfélaga á Snæfellsnesi samþykkti þann 14. nóvember 2014 tillögu að Svæðisskipulagi Snæfellsness 2014-2026.
Í svæðisskipulaginu, sem ber yfirskriftina „Andi Snæfellsness - auðlind til sóknar“, er sett fram stefna um byggðar- og atvinnuþróun á Snæfellsnesi sem miðar að því að atvinnulífið, þekkingargeirinn og samfélagið nýti sér í auknum mæli náttúru- og menningarauð Snæfellsness og að skipulag og mótun byggðar og umhverfis taki mið af honum.
Tillagan var auglýst og lá frammi til kynningar frá 4. september til 20. október 2014. Engar athugasemdir bárust en ábendingar frá þremur aðilum urðu tilefni minniháttar breytinga á tillögunni. Nefndin sendi sveitarstjórnunum tillögu sína að svæðisskipulagi þannig breytta, ásamt ábendingum og umsögn sinni um þær. Tillagan var samþykkt af sveitarstjórnum Eyja- og Miklaholtshrepps, Grundarfjarðarbæjar, Helgafellssveitar, Snæfellsbæjar og Stykkishólmsbæjar í desember 2014. Nefndin hefur afgreitt svæðisskipulagstillöguna til Skipulagsstofnunar til staðfestingar og svarað ábendingum sem bárust. Svæðisskipulagið öðlast gildi þegar afgreiðslu Skipulagsstofnunar lýkur og skipulagið hefur verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda. Skipulagið ásamt fundargerð svæðisskipulagsnefndar, þar sem ábendingar voru afgreiddar, má skoða á vefnum snaefellsnes.is/svaedisskipulag
Svæðisskipulagsnefnd sveitarfélaganna á Snæfellsnesi