- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Ingi Hans Jónsson, forstöðumaður Sögumiðstöðvarinnar í Grundarfirði, fékk símtal í vikunni þar sem honum var greint frá því að umsókn hans um Eyrarrósina væri meðal þriggja verkefna sem valin hefðu verið í tilnefningu til verðlaunanna. Hefur stjórn Sögumiðstöðvar verið boðuð til Bessastaða í dag klukkan 16.00 en þar verður tilkynnt um hvaða verkefni fái Eyrarrósina.
Vorið 2004 gerðu Listahátíð í Reykjavík, Byggðastofnun og Flugfélag Íslands með sér samkomulag um eflingu menningarlífs á landsbyggðinni. Markmiðið með samningnum er að stuðla að auknu menningarlífi á landsbyggðinni, auka kynningarmöguleika einstakra sveitarfélaga og landshluta, gefa íbúum landsins kost á afburða alþjóðlegum listviðburðum og skapa sóknarfæri á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu.
Liður í samningnum var stofnun viðurkenningar sem ber heitið Eyrarrósin og er hún veitt árlega fyrir eitt afburða menningarverkefni á starfssvæði Byggðastofnunar. Þrjú verkefni eru valin úr hópi umsækjenda og þau kynnt sérstaklega. Verðlaunin eru gripur eftir Steinunni Þórarinsdóttur og hálf önnur milljón króna í peningum.
Fyrstu Eyrarrósina, sem afhent var árið 2005, hlaut Þjóðlagahátíðin á Siglufirði; 2006 féll hún í skaut LungA, Listahátíðar ungs fólks á Austurlandi. Eyrarrósina 2007 hlaut Strandagaldur á Hólmavík og í janúar 2008 kom hún í hlut hinnar ísfirsku Rokkhátíðar alþýðunnar; Aldrei fór ég suður.
Af vef Skessuhorns