- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Til að bregðast við þeim miklu breytingum í efnahagsmálum sem nú blasa við hefur verið ákveðið að opna miðstöð í Grundarfirði fyrir þá sem leita nýrra tækifæra í námi eða vinnu. Verkefnið er unnið í samvinnu Verkalýðsfélags Snæfellinga, Grundarfjarðarbæjar og Atvinnuráðgjafar Vesturlands. Húsnæði miðstöðvarinnar verður á Borgarbraut 2, neðri hæð, en þar er einnig aðstaða verkalýðsfélagsins. Í upphafi verður opið hús frá 9:00 til 11:00, þar sem kjörið er að koma saman í spjall og kaffisopa.
Einnig verður samstarf við ýmsar stofnanir og þannig verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá af hagnýtum námskeiðum og fyrirlestrum. Námskeiðin verða öllum opin en miða að því að hvetja einstaklinga til dáða á þessum erfiðu tímum. Sem dæmi um viðfangsefni má nefna áhugasviðspróf, lesblindunámskeið, gerð ferilskrár, nýsköpun, sjálfsstyrking, sparnaðarráð og heimilisbókhald. Stefnt er að því að miðstöðin opni í næstu viku.