- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Grundarfjarðarhöfn
Meðfylgjandi frétt birtist í Morgunblaðinu 13. apríl sl.
Höf: Gunnar Kristjánsson
Það sem af er þessu ári hefur óvenjumikill fiskur farið um höfnina í Grundarfirði. Af þeim þremur mánuðum sem liðnir eru hefur mars verið sá stærsti en í þeim mánuði var landað 2.634 tonnum samanborið við 1.946 tonn í mars 2004. Fyrstu þrjá mánuði ársins lætur nærri að um 2000 tonnum meiri afli hafi komið á land en sömu mánuði í fyrra. “ Við erum svo heppin að eiga hér mjög sterk útgerðafélög sem eru undirstaðan fyrir góðu gengi hafnarinnar” segir Hafsteinn Garðarsson hafnarvörður þegar hann er inntur eftir ástæðu þessara meta nú.
Þennan dag voru þrjú togskip í höfn, f.v. Helgi SH, Þorvarður SH og Kaldbakur EA, Hafsteinn stendur á Litlu-bryggjunni sem brátt víkur fyrir nýrri og verður þá hafnaraðstaðan enn betri. |
Aðkomuskip
“ Svo er þjónustustig hafnarinnar gott og verðlag þeirrar þjónustu mjög sanngjarnt. Það leiðir til þess að við erum fá hingað aðkomuskip ÚA togararnir Kaldbakur og Harðbakur hafa verið að landa hér og fleiri skip.” Hafsteinn bætir síðan við sposkur á svip. “ Varðandi verðlagið þá er það nú orðið þannig að þeir heimamenn sem hafa löngum verið að gagnrýna okkur fyrir hátt verðlag eru farnir að aðvara okkur um að vera ekki of lágir”.
Góð hafnaraðstaða
“ Öll aðstaða hefur batnað til stórra muna eftir að Stóra bryggjan var lengd árið 2002, og miðað við umferðina í höfninni í dag þá er hún að verða of lítil á ný”. “ Næsta verkefni hjá okkur verður tilfærsla og stækkun Litlu-bryggjunnar” segir Hafsteinn það mun bæta alla aðstöðu fyrir smábátana hún verður 20 metrar á breidd en sú gamla er 8 metrar.” Hafsteini er tíðrætt um hversu góða þjónustu höfnin veiti á öllum sviðum og tekur sem dæmi, löndunarþjónustu, ísverksmiðju, flutningsaðila sem og viðgerðaþjónustu. Sem dæmi nefnir hann að skipin komi með 100 tonn af fiski og eftir 5 klukkutíma sé þau farin og allur fiskurinn líka. “ Þessi góða hafnaraðstaða hefur líka gert það að verkum að hingað sækja skemmtiferðaskipin. Tíu skip hafa boðað komu sína hingað í sumar þau eru reyndar 3 færri en í fyrra en” og það er áhersla á enið,” það er sami tonnafjöldinn hvað stærð skipana varðar” bætir hann við og það leynir sér ekki að þar fer maður með keppnisskap og maður fær það á tilfinninguna að þessu megi líkja við jafntefli í fótboltanum, sem er betra en tap.
Í vigtarskúrnum hefur verið komið upp safni mynda af þeim skipstjórum sem í gegnum tíðina hafa róið frá Grundarfirði og þarna á veggnum er að finna mynd af Hafsteini sjálfum. |
Frystihótel
“ Og nú horfum við til þess að hér rísi senn Frystihótel með tilheyrandi umsvifum” segir Hafsteinn, “ það er nánast á teikniborðinu” bætir hann við en talið berst svo að nýjustu tíðindum úr sjávarútvegsráðuneytinu og tilkynningu ráðherra um stofnun útbúa Fiskistofu um allt land þar á meðal eitt í Stykkishólmi. “Mér finnst það skjóta nokkuð skökku við að staðsetja útibúið í Stykkishólmi því rök ráðherra eru að tilgangurinn sé að færa starfsemina þangað sem mest umsvif séu í útgerð og fiskvinnslu. Á Snæfellsnesi er Grundarfjarðarhöfn sú einstök höfn sem mestur afli fer um á ársgrundvelli. Eftirlitsmenn fiskistofu hafa haldið til hér og eru sjálfir þeirrar skoðunar að hér sé mesta trafíkin. Sem mun aukast til muna þegar hér verður komið Frystihótel og tollhöfn”. segir Hafsteinn að lokum og augljóst að hann ber starfsemi hafnarinnar mjög fyrir brjósti enda lætur hann sig ekki muna um að bjóða uppá hnallþórur í vigtarskúrnum þegar metin falla.