Símenntun - Ilmkjarnaolíur

Fjallað verður um eiginleika og áhrif ilmkjarnaolía á líkama og huga og kynntar ýmsar notkunarleiðir. Farið verður í blöndun á olíunum  og munu þátttakendur útbúa sínar eigin blöndur til að fara með heim.   Innifalið í verði er námskeiðsmappa með uppskriftum og lýsingum á ilmkjarnaolíum og áhrifum þeirra.   Hefst 31. okt. kl. 18:00 til 22:00 í Grunnskólanum í Grundarfirði. Kennari: Friðgerður Jóhannsdóttir hjúkrunarfræðinugur   Upplýsingar  og skráning: Í síma 4372390 tölvupóstur  svava@simenntun.is www.simenntun.is  

Tréskurðarnámskeið hjá Símenntun!

Enn er laust á Tréskurðarnámskeið sem Símenntun Vesturlands stendur fyrir. Námskeiðið verður haldið dagana 21. og 22. október Í grunnskólanum í Grundarfirði. Námskeiðið er 2 skipti, alls 16 kennslustundir. Verð kr. 14.900. Kennari: Jón Adólf Steinólfsson listamaður. Þátttakendur muna læra grunnhandtök í tréútskurði og hanna eitt til tvö verk á námskeiðinu.   Upplýsingar og skráning í síma 4372390 og á www.simenntun.is.   Hægt er að skoða verk eftir listamanninn á heimasíðu hans www.jonadolf.com.

Frá unglingadeildinni Pjakk

Við í Unglingadeildinni Pjakk viljum þakka fyrir góðar móttökur Þriðjudaginn 11. okt er við gengum í hús og seldum klósettpappír. Einnig viljum við benda á það að við eigum nóg eftir og ef einstaklingar eða fyrirtæki hafa áhuga á að kaupa góðan klósettpappír á góðu verði þá er hægt að ná í okkur í síma: 847-2969   Kærar kveðjur, Gísli Valur, umsjónarmaður Unglingadeildarinnar Pjakks

Stóraukin notkun á vefsíðunni

Innlit á vefsíðu Grundarfjarðarbæjar náðu nýjum hæðum í síðasta mánuði. Alls voru innlitin 10.828 en voru liðlega 6.000 í sama mánuði 2004. Nú þegar eru innlit á vefsíðuna fleiri en allt árið í fyrra.   Það er mikilvægt að notendur vefsíðunnar geti treyst þeim upplýsingum sem þar birtast og því er síðan uppfærð daglega.  

Sætir sækja á í Hópleiknum

Nú er farið að færast fjör í Hópleikinn, því margir hópar eru farnir að banka á efsta sætið. Eins og stöðutaflan hér fyrir neðan sýnir, þá er EÝ 1825 sem hafa forystu eins og er, en aðeins með tveggja stiga mun á S.G.Hópinn. En Sætir sem, eru í þriðja sæti eru í mikilli sókn.    

Grundfirðingar tóku vel á móti Blóðbankabílnum

44 einstaklingar komu og gáfu blóð eða gerðust blóðgjafar þegar blóðbankabílinn kom til Grundarfjarðar 5. október sl. Voru forstöðumenn blóðsöfnunarferða mjög ánægðir með ferðina og vildu koma á framfæri þakklæti til Grundfirðinga. Jafnframt hlakka þau til að heimsækja Grundarfjörð aftur í vor til að sjá hvort metið verði slegið. 

Tilkynning um breytingar á “Hönnugili”

Vinnuhópur/tillöguhópur, sem skipaður var af umhverfisnefnd, hefur gert tillögu að mótun Hönnugils, en það er gilið þar sem “Merkjalækur” rennur fram um, en þessi lækur er sagður vera á merkjum Hellnafells og Grafar.   Forsaga málsins er sú að umhverfisnefnd gerði á sínum tíma tillögu að því að móta þetta svæði sem útivistarsvæði og skildi ”tippa” þangað efni sem til félli í tengslum við ýmsar framkvæmdir í bænum.  Bæjarráð Grundarfjarðar samþykkti þessa tillögu umhverfisnefndar á fundi sínum í maí sl., en óskaði að fá heildstæðar tillögur um skipulag þessa svæðis. 

Vinnu við aðalskipulag dreifbýlis að ljúka

Erla Bryndís Kristjánsdóttir landslagsarkitekt hjá Teiknistofunni Eik er nú að leggja lokahönd á  tillögur sínar um aðalskipulag dreifbýlis. Á fundi bæjarstjórnar þann 15. september sl. kynnti hún bæjarstjórn og umhverfisnefnd drög að tillögunum. Farið var yfir áherslur og meginmarkmið með gerð skipulagsins, m.a. um sjálfbæra þróun.

Snæfellingurinn James Bond – og aðrir góðir gæjar og píur

Nú hefur það fengist staðfest, eftir áreiðanlegum heimildum, að 007 – James Bond – er Snæfellingur – að sjálfsögðu – og gott ef hann er ekki Grundfirðingur. Hann mun heiðra okkur með nærveru sinni á menningarhátíðinni Rökkurdögum, en sérlegur leiðsögumaður hans þar verður Ingi Hans. Undirbúningi Rökkurdaganna er nú að ljúka. Hátíðin hefst fimmtudaginn 20. október n.k. og stendur í um þrjár vikur, en þetta er í annað sinn sem hún er haldin. 

Bæjarstjórnarfundur

61. fundur bæjarstjórnar Grundarfjarðar verður haldinn á morgun, fimmtudaginn 13. október kl. 17.00 í samkomuhúsinu. Á dagskrá eru m.a. fundargerðir nefnda og ráða, niðurstöður sameiningarkosninganna, endurskoðuð fjárhagsáætlun 2005, umferðarskipulag við grunnskóla, reglur um byggðakvóta og ýmis gögn til kynningar. Fundurinn er öllum opinn.   Bæjarstjóri