Nú hefur það fengist staðfest, eftir áreiðanlegum heimildum, að 007 – James Bond – er Snæfellingur – að sjálfsögðu – og gott ef hann er ekki Grundfirðingur. Hann mun heiðra okkur með nærveru sinni á menningarhátíðinni Rökkurdögum, en sérlegur leiðsögumaður hans þar verður Ingi Hans.

Undirbúningi Rökkurdaganna er nú að ljúka. Hátíðin hefst fimmtudaginn 20. október n.k. og stendur í um þrjár vikur, en þetta er í annað sinn sem hún er haldin. 

 Njósnari hennar hátignar verður ekki í slæmum félagsskap á Rökkurdögum, því annar frækinn kappi, Gísli Súrsson, lítur einnig við hjá okkur.

Það mun tónlistarkonan Hera líka gera og Stúlknabandið. Lína, Kristín og Hrafnhildur Jóna setja upp listsýningu á kvennafrídeginum, leikskólabörn opna sýningar og Fjölbrautaskólanemar sýna stuttmyndir.

 

Ef þú lumar á viðburði inn á dagskrána, þá er síðasti séns að hafa samband við Rósu framkvæmdastjóra í síma 869 2701 eða í rosa@grundarfjordur.is

Fylgist með auglýsingum um Rökkurdaga á bæjarvefnum, í Vikublaðinu og í dagskrá sem borin verður í hús.