Nú er orðið fjör í Hópleiknum.

  Öll þrjú efstu liðin náðu góðu skori nú um helgina og náðu Sætir efsta sætinu af EÝ 1825á betra skori. Hársport United sækir fast að þessum hópum. F.C. Verktakar halda sínu 4. sæti með 9 stig núna og þá halda Bræðurnir 5. sæti. S.G. hópurinn sem tippaði núna beint frá Newcastle náði 9 stigum, þeir gáfu loforð um að koma ekki heim ef þeir yrðu undir 10 stigum, svo það fækkar sennilega í Hópleiknum næstu helgi.

Frá UMFG

Um síðustu helgi var dagur enska boltans og fylgja hér nokkrar myndir frá þeim degi. Getraunastarfið heldur áfram og er kominn spenna í hópleikinn. Opið er í Sögumiðstöðinni til kl 12 alla laugardaga. Garðar og Eyþór spá í seðil vikunnar.

Menningarsamningur við Vesturland

28. október sl. var í Hvalfirði undirritaður samningur um samstarf menntamálaráðuneytis og samgönguráðuneytis við 17 sveitarfélög á Vesturlandi um menningarmál og menningartengda ferðaþjónustu. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra undirritaði samninginn f.h. ríkisins, en Helga Halldórsdóttir formaður Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi undirritaði samninginn fyrir hönd sveitarfélaganna. Er þetta í fyrsta sinn sem gengið er til slíks samstarfs við Vesturland, en áður hefur verið gengið til samstarfs við Austurland með sambærilegum hætti.

Myndir frá sýningunni um Gísla Súrsson í Grunnskólanum

20. október sl. sýndi Kómedíuleikhúsið leikverkið Gísli Súrsson í Grunnskóla Grundarfjarðar við mikinn fögnuð nemenda. Sýningin var liður á dagskrá menningarhátíðarinnar Rökkurdaga, og var sýningin í boði Landsbankans í Grundarfirði. Önnur sýning var fyrir almenning í samkomuhúsinu um kvöldið. Hér koma nokkrar myndir sem teknar voru við þetta tækifæri í grunnskólanum. Einn leikari var í sýningunni Elfar Logi Hannesson, sem skrifaði leikritið ásamt Jóni Stefáni Kristjánssyni. Sjá nánar á www.komedia.is

Nýr liður á vefnum

Vakin er athygli á því að hér á vefnum er að finna útlistun á markmiðum bæjarins skv. Staðardagskrá 21, og ennfremur upplýsingar (í aftasta dálki töflu) um hvort og hvernig reynt sé að ná settum markmiðum. Sjá hlekk í Gaman að skoða  

Sýningin Kvennaverk

Þær Dagbjört Lína, Kristín og Hrafnhildur Jóna opnuðu fyrir skemmstu sýninguna Kvennaverk í Sjálfstæðishúsinu að Grundargötu 24. Þar sýna þær hátt í 40 verk sem öll eru unnin sérstaklega fyrir þessa sýningu. Dagbjört Lína og Kristín sýna bæði gler- og leirmyndir. Þær eru einnig að koma af stað framleiðslu á matarstelli og öllum tilheyrandi fylgihlutum úr gleri. Þar getur kaupandinn tekið þátt í hönnun matarstellsins og komið með sínar óskir um útlit og fleira. Hrafnhildur Jóna sýnir tölvumyndir á skjávarpa. Hægt er að kaupa þessar myndir í mismunandi útfærslum og  samráði við Hrafnildi Jónu getur kaupandinn valið sína útfærslu á verkunum, t.d. er hægt að prenta á pappír, tau og striga.

Tómstundastarf eldri borgara í Grundarfirði

Eldri borgarar í Grundarfirði hafa hist vikulega í gamla fjarnámsverinu sem er til húsa að Borgarbraut 16. Þær Kristín Pétursdóttir og Dagbjört Lína Kristjánsdóttir leiðbeina áhugasömum og kynna fyrir þeim ýmiss konar föndurmynstur. Allir eldri borgarar í Grundarfirði eru velkomnir í tímana. 

Frá heilsugæslustöð Grundarfjarðar

Háls-, nef- og eyrnalæknir   Þórir Bergmundsson háls-, nef- og eyrnalæknir verður með móttöku á heilsugæslustöðinni föstudaginn 4. nóvember. Tekið er á móti  tímapöntunum á Heilsugæslustöð Grundarfjarðar í síma 438-6682.

Málfundur um öryggismál

Miðvikudaginn 2. nóvember var haldinn málfundur um öryggismál sjófarenda í Grundarfirði. Fundurinn hófst kl. 20.00 í Fjölbrautaskóla Snæfellinga og var fundarstjóri Sigríður Finsen, forseti bæjarstjórnar Grundarfjarðar. Fundurinn var sá fyrsti í röð funda um land allt um öryggismál. Málfundum þessum er ætlað að vekja athygli á einstökum þáttum í öryggismálum, svo sem nýjungum í öryggisfræðslu o.fl., og eru hluti áætlunar um öryggi sjófarenda.  

Fundargerðir framkvæmdaráðs Snæfellsness

Vakin er athygli á því að fundargerðir framkvæmdaráðs Snæfellsness eru aðgengilegar á vef Grundarfjarðarbæjar. Neðarlega á hægri hlið forsíðunnar, undir dálknum gaman að skoða, er hægt að smella á Green Globe 21 merkið og þá opnast undirsíða með ýmsum upplýsingum um Green Globe 21 og stefnu sveitarfélaganna á Snæfellsnesi í sjálfbærri þróun umhverfis- og samfélagsmála Snæfellsness. Hægt er að fara beint inn á síðuna hér.