Vinnuhópur/tillöguhópur, sem skipaður var af umhverfisnefnd, hefur gert tillögu að mótun Hönnugils, en það er gilið þar sem “Merkjalækur” rennur fram um, en þessi lækur er sagður vera á merkjum Hellnafells og Grafar.

 

Forsaga málsins er sú að umhverfisnefnd gerði á sínum tíma tillögu að því að móta þetta svæði sem útivistarsvæði og skildi ”tippa” þangað efni sem til félli í tengslum við ýmsar framkvæmdir í bænum.  Bæjarráð Grundarfjarðar samþykkti þessa tillögu umhverfisnefndar á fundi sínum í maí sl., en óskaði að fá heildstæðar tillögur um skipulag þessa svæðis. 

Á fundi umhverfisnefndar í ágúst sl. var lagt til að hagsmunaaðilar úr nágrenni svæðisins yrðu boðaðir til fundar um mótun þessa svæðis og var að auki ákveðið að fá til liðs, Inga Hans Jónsson, til að rissa upp hugmyndir hópsins.  Vinnuhópurinn hélt síðan tvo fundi í september sl.

Í hópnum voru fulltrúar frá eftirfarandi götuhverfum/hagsmunaaðilum;

Fagurhóli, Hellnafelli, Hrannarstíg 28-40, Fellaskjóli, ásamt formanni umhverfisnefndar, verkstjóra áhaldahússins og byggingarfulltrúa.

 

Tillögur hópsins má skoða á heimasíðu Grundarfjarðarbæjar, en þar er m.a. gerð tillaga um að fylla í gilið með efni, mynda þar útivistarsvæði með sléttum flötum, göngustígum og trjágróðri. Á svæðinu verður ýmis afþreying t.d. púttvöllur / mínígolfvöllur, sleðabrekka, leiktæki, grillaðstaða, setbekkir osfrv.  Gert er ráð fyrir að lækurinn sem þarna er, muni halda sér í framtíðinni.

 

Nú þegar er farið að fylla í þetta svæði með efni sem til fellur uppúr byggingarlóðum, og verður svæðið mótað jafn óðum og efni berst til.  Reiknað er með að svæðið geti fyrst orðið tilbúið til notkunar sumarið 2007.

 

Með kveðju,

 

Jökull Helgason

Skipulags- og byggingarfulltrúi

 

Tillögur að breytingum Hönnugils