Grein bæjarstjóra, birt í Vikublaðinu Þey 16. júní 2005:
Hjá Grundarfjarðarbæ verðum við mjög fljótt vör við það þegar þrengist um á fasteignamarkaði, bæði hvað varðar leiguhúsnæði og fasteignir til kaups/sölu. Mikið er leitað til bæjarins um leiguhúsnæði og með almennar fyrirspurnir um laust íbúðarhúsnæði í bænum. Undanfarna mánuði, og reyndar um alllangt skeið, hefur verið töluverð hreyfing á húsnæði og sú staða er uppi nú að mjög fá hús eru til sölu, kannski má segja að það sé bara búið að kaupa flest það íbúðarhúsnæði sem yfirhöfuð er til sölu, a.m.k. þessa stundina. Mjög mikil eftirspurn er eftir húsnæði og mikið spurt um lóðir og ljóst að margir íhuga nýbyggingar, án þess þó að hafa látið til skarar skríða.