Laun bæjarstjóra og bæjarfulltrúa árið 2012

Grundarfjarðarbær leggur áherslu á gagnsæja stjórnsýslu og gott upplýsingastreymi til íbúa. Með það að markmiði hefur ráðningarsamningur bæjarstjóra verið birtur á heimasíðu bæjarins sem og upplýsingar um launakjör bæjarstjórnar og nefnda.   Grundarfjarðarbær telur mikilvægt að greinargóðar upplýsingar um laun þessara aðila liggi fyrir. Í meðfylgjandi töflu eru sundurliðuð laun bæjarstjóra og bæjarfulltrúa vegna ársins 2012.   Laun bæjarstjóra og bæjarfulltrúa árið 2012 Ráðningarsamningur bæjarstjóra Launakjör bæjarfulltrúa og nefnda

Fasteignagjöld árið 2013

Álagningu fasteignagjalda ársins 2013 er lokið. Álagningarseðlar hafa verið póstlagðir til allra fasteignaeigenda. Jafnframt eru álagningarseðlar birtir á vefsíðunni www.island.is.   Gjalddagar eru tíu eins og var í fyrra. Greiðsluseðlar eru ekki sendir út nema til eldri borgara og fyrirtækja. Greiðsluseðlar eru birtir í heimabönkum og þar er hægt að prenta út greiðsluseðil. Eins og áður má einnig greiða fasteignagjöld með kreditkorti eða beingreiðslum af bankareikningum. Fyrsti gjalddagi er 1. febrúar og eindagi 30 dögum síðar.   Vatnsgjald er innheimt af Orkuveitu Reykjavíkur. Fyrirspurnum um vatnsgjald ber að beina til Orkuveitunnar í síma 516 6000 eða með tölvupósti á netfangið or@or.is.  

Þorrablót Hjónaklúbbsins

48. þorrablót Hjónaklúbbs Eyrarsveitar verður haldið í Samkomuhúsi Grundarfjarðar laugardaginn 2. febrúar 2013. Húsið opnar kl 19:00, borðhald hefst kl 20:00 og munu Ingó og Veðurguðirnir halda uppi fjörinu langt fram á nótt. Boðið verður upp á hefðbundinn þorramat frá Gæðakokkum Borgarnesi.  

Fyrirlestur á vegum SAFT.

Í Fjölbrautaskóla Snæfellinga fimmtudaginn 24. janúar, klukkan 20:00.   Allir velkomnir. Sérstaklega foreldrar/forráðamenn nemenda á grunn- og framhaldsskólaaldri.   Internetið: Jákvæð og örugg notkun barna og unglinga. Fyrirlesari: Hafþór Barði Birgisson, tómstunda- og félagsmálafræðingur.   Fyrirlestur á vegum SAFT. Efnistök: Internetið er frábær upplýsingaveita og tæki til samskipta en þar felast einnig ýmsar hættur sem mikilvægt er fyrir foreldra að þekkja og gera sér grein fyrir.   Til að foreldrar geti talað við börnin sín og leiðbeint þeim um öryggi og góða hegðun þurfa þeir að þekkja það umhverfi sem börnin eru í dags daglega. Leiðbeiningar um “umferðarreglur” á netinu eru því orðinn einskonar hluti af uppeldishlutverkinu. Fjallað verður um netið og nýmiðla og mikilvægi þeirra í lífi barna og unglinga.   

Sólarkaffi Átthagafélagsins

Sólarkaffi með pönnukökum og vöflum verður haldið sunnudaginn 27. janúar frá kl. 14.00 til 17.00 í Félagheimilinu Gullsmára 9 Kópavogi (sama stað og síðustu 2 ár). Fullorðnir 1.200 kr., 6 til 16 ára 500 kr og frítt fyrir yngstu börnin. Verðum með bækunar Fólkið, fjöllin, fjörðurinn til sölu. Posi á staðnum. Verið dugleg að deila og láta fjölskyldu og vini vita. Okkur þykir vænt um að þeir Grundfirðingar sem að búa í Grundarfiði láti sjá sig ef þeir eru í bæjarferð. Alltaf gaman að hittast með sól í hjarta og bros á vör. Nefndin

Félagsvist

Félag eldri borgara auglýsir félagsvist í samkomuhúsinu miðvikudaginn 23. janúar kl 20:00.   Allir velkomnir.      

Karlakaffi

Karlakaffið hefst að nýju eftir jólafrí þriðjudaginn 22.jan kl 14.00 í Verkalýðshúsinu að Borgarbraut 2.   Karlakaffið er ætlað öllum körlum óháð aldri stétt og stöðu.    

Vinabæjarhátíð í Paimpol, 15.-17. mars

Í mars 2013 mun Grundapol, Vinabæjarfélag Paimpol-Grundarfjarðar í Frakklandi, halda upp á 10 ára afmæli samstarfs milli Paimpol og Grundarfjarðar.   Glæsileg helgi er í vændum og hefur m.a. fyrrverandi forseta Íslands, Vigdísi Finnbogadóttur verið boðið til þessarar hátíðar. Þá mun sendiherra Íslands í Frakklandi, Berglindi Ásgeirsdóttur, og Grundfirðingum öllum vera boðið til Paimpol. Hátíðin verður haldin helgina 15.- 17. mars nk.   Þeir sem hafa áhuga á að slást með í ferð til Paimpol er bent á að senda tölvupóst til Johönnu, johanna@fsn.is .  

Síldardauðinn í Kolgrafafirði

Frá því að um 30 þúsund tonn af síld drapst í Kolgrafafirði í desember hefur verið fylgst náið með málinu af hálfu Grundarfjarðarbæjar. Leitað hefur verið til sérfræðinga Umhverfisstofnunar og Hafrannsóknastofnunarinnar til að fá skýringar á þessum atburði og hvernig bregðast eigi við.   Erfitt er að ímynda sér umfang þessa síldardauða en gera má ráð fyrir að þetta séu hið minnsta um 120 milljón fiskar. Það er því fráleitt að bera þetta magn saman við hvalreka eða annan slíkan atburð í náttúrunni eins og Umhverfisstofnun gerði.  

Ljósmyndasamkeppni Grundarfjarðar 2013

Grundarfjarðarbær efnir á ný til ljósmyndasamkeppni árið 2013. Þetta er í fjórða sinn sem bærinn blæs til ljósmyndasamkeppni og hefur þótt takast vel til. Á þennan hátt hefur bærinn fengið nýjar myndir til birtingar og þátttakendur sínar myndir birtar.   Þema samkeppninnar í ár er Fjaran. Myndirnar verða að vera teknar innan sveitarfélagsmarka og á tímabilinu janúar til september. Samkeppnin stendur til 30. september 2013 og má hver þátttakandi senda inn að hámarki fimm myndir.   Verðlaun verða veitt fyrir þrjár bestu myndirnar. Fyrstu verðlaun eru 50.000 kr., önnur verðlaun 30.000 kr. og þriðju verðlaun 20.000 kr.