Í tilefni af Degi leikskólans í dag 6.febrúar þá langar okkur hér í leikskólanum Sólvöllum að vekja athygli á verkefni sem við höfum verið að vinna að síðastliðin tvö ár. Verkefni þetta heitir Lífsleikni og er þróunarverkefni sem unnið var á þremur leikskólum á Akureyri í samvinnu við Háskólann á Akureyri. Verkefnið byggir á 12 dygðum en þær eru: ábyrgð, áreiðanleiki, glaðværð, hjálpsemi, hófsemi, hugrekki, kurteisi, samkennd, sköpunargleði, vinsemd, virðing og þolinmæði. Megintilgangurinn með þessari vinnu er að gera börn og starfsfólk tamt að nota hugtökin í máli, leik og starfi. Í handbók kennara sem fylgir verkefnapakkanum segir m.a.: „Félags-og tilfinningagreind barna er í mótun öll bernskuárin. Því er mikilvægt að byrja snemma að hlúa að og efla þá þætti með einstaklingnum. Rannsóknir benda til að grunnurinn sé lagður að félags-og tilfinningaþroska á fyrstu árum þess. Það er hverjum einstaklingi mikilvægt að vera læs á tilfinningar, þ.e. fær um að hafa taumhald á sér og geta sýnt umhyggju og samúð með öðrum“ (Handbók fyrir kennara. 2007. Ritstjóri: Sonja Kro. Akureyri).