Grundfirðingar ætla að fagna komandi sumri og gera sér glaðan dag á sumardaginn fyrsta. Hátíðarhöldin hefjast með skátamessu í Grundarfjarðarkirkju kl. 11:00. Að lokinni messu verður farið yfir í íþróttahúsið og þar hefst skipulögð dagskrá sem stendur til kl. 13:00.
Sögumiðstöðin tekur þátt í fyrsta Safnadegi Vesturlands. Húsið verður opið frá Kl. 14:00 – 17:00. Gestum og gangandi verður boðið í kaffi og vöfflur. Í Bæringsstofu verður saga kvenfélagsins rakin í máli og myndum. Munir grundfirskra listakvenna verða til sýnis í Sögumiðstöðinni.
Ingi Hans Jónsson opnar Sögustofuna á heimili sínu að Læk. Hann tekur á móti gestum milli klukkan 16:00 og 18:00.