- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Á fundi bæjarráðs Grundarfjarðar 18. nóv. sl., var fjallað um málefni Fjölbrautaskóla Snæfellinga og fyrirhugaðan niðurskurð fjárveitinga til skólans í fjárlagafrumvarpi 2015.
Fundarmenn lýstu yfir miklum áhyggjum af þróun mála í þessum efnum. Alger samstaða var um það á fundinum að kalla eftir leiðréttingu á fjárveitingum til skólans þannig að unnt yrði að halda uppi sambærilegri kennslu í skólanum árið 2015, eins og verið hefur.
Svofelld bókun var samþykkt samhljóða í bæjaráði:
„Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2015 er gert ráð fyrir 18,4% niðurskurði á framlögum til Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Niðurskurðurinn er skýrður á grunni þess að ekki verði greitt rekstrarframlag vegna nemenda sem eru 25 ára og eldri og hið sama verði gert vegna nemenda sem stunda fjarnám.
Gangi þessar hugmyndir eftir er ljóst að það mun skaða námsframboð verulega og þar með gæði skólans. Fyrirhugaðar breytingar ógna stöðu sveitarfélaga á Snæfellsnesi og skerða lífsgæði íbúa.
Bæjarráð mótmælir harðlega þessum áformum ríkisstjórnarinnar. Gerð er sú krafa að niðurskurður þessi verði dreginn til baka svo unnt verði að reka skólann áfram í þeirri mynd sem verið hefur.“