Gestir á málþinginu.Er líf án þorsksins? var yfirskrift málþings um atvinnumál sem Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og Snæfellsbær stóðu fyrir í félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík á föstudag. Tilefni fundarins var breytt staða í atvinnumálum á Vesturlandi, þá sérstaklega Snæfellsnesi, eftir skerðingu þorskkvótans við upphaf síðasta fiskveiðiárs. Síðustu fréttir um lélega árganga og nýliðun í stofninum benda til þess að samdrátturinn í þorskveiðum sé kominn til að vera, að minnsta kosti næstu árin. Snæfellsnes hefur verið sérstaklega háð þorskaflanum og sjávarútveginum, enda vægi sjávarútvegs hvorki meira né minna en 70% af verðmætasköpun atvinnulífsins á svæðinu.
Frétt á vef Skessuhorns 21. apríl 2008.