Sundkennsla

Nokkuð hefur dregist að sundkennsla hæfist þetta vor. Miklar frosthörkur voru í mars og apríl þannig að erfitt var að losna við klakann úr sundlauginni og gera laugina tilbúna til notkunar. Miklar kröfur eru gerðar um að kennarar hafi fulla menntu og réttindi til að taka að sér sundkennslu. Menntamálaráðherra hefur nú veitt heimild fyrir því að Erna Sigurðardóttir kenni sund þetta vorið. Sundlaugin er orðin heit og í góðu lagi og okkur því ekkert að vanbúnaði að hefja sundkennsluna. Sundtímar hefjast í næstu viku og verða í íþróttatímum en auk þess verður nokkrum sundtímum bætt við í fjölmennustu bekkjunum.  

Bæjarstjórnarfundur

Bæjarstjórnarfundur (aukafundur) verður haldinn, þriðjudaginn 29. apríl 2008 kl. 16.15,  í Samkomuhúsinu. Hér má sjá dagskrá fundarins.

Sundlaugin opnuð á sumardaginn fyrsta

Sundlaugin verður opnuð á morgun, sumardaginn fyrsta. Opið verður frá 12.00 - 18.00. Frítt fyrir alla þennan dag í tilefni dagsins.  Opnunartíminn verður síðan þannig á meðan skóli er: Mánudaga - föstudaga kl. 07.00 - 08.00 og 16.00 - 21.00 Laugardaga - sunnudaga kl. 12.00 - 18.00

Hreinsunarvika

Föstudaginn 25. apríl er árlegur umhverfisdagur. Í tilefni dagsins verður hreinsunarvika í Grundarfirði frá föstudeginum 25. apríl til laugardagsins 3. maí.   Hér má sjá auglýsingu með nánari upplýsingum ásamt því hvaða aðilar verða með viðburði í tilefni dagsins 

Staðfest að Snæfellsnes fær skilyrta Green Globe vottun

Staðfest hefur verið í framhaldi úttektar á stöðu sveitarfélaganna og Þjóðgarðsins á Snæfellsnesi að þessum aðilum verð veitt skilyrt Green Globe vottun.  Gert er ráð fyrir að vottunin verði formlega staðfest innan fárra vikna.  Stefnt er að því að sú staðfesting verði gerð við sérstaka athöfn af því tilefni.   Snæfellsnes er fyrsta samfélagið í Evrópu og sennilega þriðja samfélagið í heiminum til að ná þriðja og síðasta þrepi vottunarferlisins. Hin tvö eru á Nýja-Sjálandi og  í Indónesíu.   Um nánari upplýsingar er vísað á heimasíðu Framkvæmdaráðs  Snæfellsness.

Vorkoman

Vorið er komið. Þá er margt sem við þurfum að huga að í okkar nánasta umhverfi. Þann 25. apríl nk. er Dagur umhverfisins og mun bæjarfélagið brydda upp á ýmsum atburðum í tilefni dagsins. Hér má lesa grein eftir Guðmund Inga Gunnlaugsson, bæjarstjóra í tilefni vorsins.

Eldri borgarar

Söngæfingin miðvikudaginn 23 apríl fellur niður, næsta æfing verður miðvikudaginn 30 apríl sem verður jafnframt síðasta söngæfing vetrarins. 

Líflegt málþing um líf án þorsks á Snæfellsnesi

Gestir á málþinginu.Er líf án þorsksins? var yfirskrift málþings um atvinnumál sem Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og Snæfellsbær stóðu fyrir í félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík á föstudag. Tilefni fundarins var breytt staða í atvinnumálum á Vesturlandi, þá sérstaklega Snæfellsnesi, eftir skerðingu þorskkvótans við upphaf síðasta fiskveiðiárs. Síðustu fréttir um lélega árganga og nýliðun í stofninum benda til þess að samdrátturinn í þorskveiðum sé kominn til að vera, að minnsta kosti næstu árin. Snæfellsnes hefur verið sérstaklega háð þorskaflanum og sjávarútveginum, enda vægi sjávarútvegs hvorki meira né minna en 70% af verðmætasköpun atvinnulífsins á svæðinu. Frétt á vef Skessuhorns 21. apríl 2008.

Sýning í Norska húsinu í Stykkishólmi

Á sumardaginn fyrsta opnar Sigríður Erla Guðmundsdóttir myndlistarkona sýningu á verkum sínum. Sýningin er að efninu til að mestu unnin úr leir frá Fagradal á Skarðströnd en hugmyndirnar eru sóttar hingað og þangað. Þó má sjá  þráð sem liggur til Breiðafjarðar bæði til sjávar og lands. Má nefna portret af Breiðfirðingum þekktum sem óþekktum, forvitna fugla sem einu sinni  sátu á skerjum og vissu ekki annað. Tómataþroskarar og ávaxtaskálar sem spruttu upp úr hrúðurkörlum og júgrum. Beinahrúgu úr fínu frönsku postulíni og sterkleg bein úr Dölum.  

Listasmiðja fyrir börn á Snæfellsnesi

Viðburðarvika verður haldinn dagana 23. - 30. apríl nk. og af því tilefni verður sett upp listasmiðja fyrir börn sem eru í 1. - 7. bekk í grunnskóla. Hér má sjá auglýsingu með nánari upplýsingum.