Sveitarfélögin á Snæfellsnesi, Eyja- og Miklaholtshreppur, Grundarfjarðarbær, Helgafellssveit, Snæfellsbær og Stykkishólmsbær auk Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls, taka þann 8. júní formlega á móti vottun frá alþjóðlegu umhverfisvottunarsamtökunum Green Globe.
Þetta er merkur áfangi í sjálfbærnisögu Íslands, því sveitarfélögin eru þau fyrstu í Evrópu til að hljóta vottun fyrir stefnu og framkvæmd í sjálfbærri þróun umhverfis- og samfélagsmála og fjórða svæðið í heiminum til að ná slíkum árangri.
Eiginlegt vinnuferli hófst árið 2003, en frá þeim tíma hafa orðið geysilegar breytingar á umhverfisstjórnun sveitarfélaganna. Allir leikskólar og fimm grunnskólar af sjö á Snæfellsnesi hafa fengið Grænfánann, hafnirnar í Stykkishólmi og á Arnarstapa eru komnar með Bláfánann en báðir fánarnir undirstrika aukna umhverfisstjórnun og sjálfbærni í rekstri viðkomandi staða.