- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Frétt af vef Skessuhorns 19.06.2009
Meðal viðburða á þjóðhátíð í Grundarfirði á þjóðhátíðardaginn var vígsla nýrrar sundlaugar, sem reist var á grunni þeirrar gömlu sem tekin var í notkun árið 1976. Nýja sundlaugin er úr sömu efnum og sú gamla, en fullkomnari að því leyti að við bakka hennar er svokallaður öldubrjótur, þar sem vatnið rennur áfram yfir í rennur og þaðan í hreinsikerfi laugarinnar. Sundlaugin er byggð á trégrind og laugarkerið er eins og í gömlu lauginni plastdúkur frá Seglagerðinni. Stærðin er sú sama og áður 8x16,66 metrar. Ekkert ásættanlegt tilboð barst í framkvæmdirnar í vor og var því ákveðið að starfsmenn bæjarins undir stjórn Ágústs Jónssonar ráðsmanns sæju um verkið og fengju til aðstoðar iðnaðarmenn á staðnum. Gamla laugin var rifin í byrjun maí og smíði við endurnýjunina hófst síðan 14. maí.
Ágúst við laugina. |
„Það var ákveðið að keyra á þetta, en menn höfðu nú ekki trú á því að þetta yrði klárt fyrir þjóðhátíðardaginn eins og að var stefnt. Við erum búnir að halda stíft á spöðunum og ég er búinn að vinna þarna drjúgan hluta sólarhringsins undanfarið,“ sagði Ágúst Jónsson ráðsmaður, viðhaldsmaður fasteigna hjá Grundarfjarðarbæ í samtali við Skessuhorn í byrjun vikunnar.