Viltu vera víkingur í sumar?

Senn hefjast komur skemmtiferðaskipa til Grundarfjarðar. Undanfarin ár hefur vel verið tekið á móti farþegum þeirra og í sumar verður engin undantekning þar á. Fyrsta skipið kemur 22. maí og það síðasta 6. september, en þau eru alls 13 talsins.Nú leitum við að opnum og hressum aðilum til að manna móttökuhópinn víðfræga sem starfað hefur undanfarin tvö ár. Ertu á aldrinum 16-25 ára, og til í að taka þátt í skemmtilegu og gefandi starfi? Ekki sakar að geta sungið eða spilað á hljóðfæri en það er þó ekki skilyrði. Vinnan er launuð.Um nánari upplýsingar og skráningu sjá Jónas Víðir Guðmundsson (899-1930) og Sigurborg Kr. Hannesdóttir (866-5527).Grundarfjarðarhöfn

Íslensk hljómsveit hafnaði í öðru sæti

Mbl.is  28. apríl 2010: Íslenska hljómsveitin Endless Dark, sem er frá Ólafsvík og Grundarfirði, hafnaði í öðru sæti í hljómsveitakeppninni Global Battle of the Bands. Keppnin fór fram í London og lágu úrslitin fyrir í gærkvöldi, en alls tók 21 hljómsveit þátt í úrslitakvöldinu.   Það var kínversk rokkhljómsveit sem bar sigur úr býtum í ár, en hún nefnist Rustic. Í þriðja sæti var svo norska sveitin Explicit Licks.   Mörg þúsund hljómsveitir reyna á hverju ári að komast í keppnina og á undanförnum árum hafa Íslendingar átt fulltrúa í keppnni.

Byggjum betra samfélag

Málþing á vegum Hlutverkaseturs, Rauða kross Íslands,  Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Vesturlandi og Félags- og tryggingamálaráðuneytisins Haldið í Sögumiðstöðinni í Grundarfirði miðvikudaginn 28. apríl 2010 Sjá nánar hér.

Söfnun og notkun íslenskra lækningajurta

Á námskeiðinu er farið er yfir helstu atriði um söfnun og notkun lækningajurta og hvernig útbúa á jurtablöndur. Vegleg gögn fylgja um áhrif helstu jurtanna og uppskriftir að jurtablöndum gegn einföldum kvillum.

Umhverfisátak framlengt

Í síðustu viku var umhverfisátak í Grundarfirði en veður var leiðinlegt og hentaði illa til útiverka. Því hefur verið ákveðið að framlengja umhverfisátakið til sunnudagsins 10. maí.  

Ársreikningur Grundarfjarðarbæjar fyrir árið 2009 var afgreiddur í bæjarstjórn eftir síðari umræðu þann 26. apríl

Í ársreikningi Grundarfjarðarbæjar fyrir árið 2009 kemur fram talsverður bati í rekstri bæjarins.  Launakostnaður og annar rekstrarkostnaður lækkaði á milli áranna 2008 og 2009.  Þetta tókst með þeim aðhaldsaðgerðum sem bæjarstjórnin greip til eftir efnahagshrunið og með samstilltu átaki starfsmanna bæjarins.  Ástæða er til þess að þakka öllu starfsfólki bæjarins sérstaklega fyrir þeirra þátt í bættri rekstrarafkomu.  Afgangur af rekstri fyrir afskriftir og fjármagnskostnað er 116 milljón krónur.  Veltufé frá rekstrinum jókst á árinu frá því sem var 2008 og varð 66,6 milljónir króna.  Afborganir lána voru 30 milljón krónum hærri en nýjar lántökur.  

Bæjarstjórnarfundur

119. fundur bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar verður haldinn í samkomuhúsi Grundarfjarðar, mánudaginn 26. apríl 2010, kl.16.15. Fundir bæjarstjórnar eru opnir og eru allir velkomnir að koma og hlýða á það sem fram fer.

Könnun vegna hugmyndar um að innrétta húsnæði fyrir ýmis námskeið og fleira

Ég heiti Freydís Bjarnadóttir og er á frumkvöðlasmiðju á vegum vinnumálastofnunar og símenntunarmiðstöðvar vesturlands. Ég er að vinna í hugmynd á þessu námskeiði og mig langar að biðja þig um aðstoð og taka þessa könnun fyrir mig. Hugmyndin er að innrétta 60fm húsnæði og búa til sal þar sem hægt er að bjóða uppá ýmis námskeið og útleigu. Könnun  

Gleðilegt sumar með þökk fyrir liðinn vetur

Sumardagurinn fyrsti er á fimmtudaginn 22. apríl.  Þessi dagur er táknrænn fyrir þá tilfinningu, að birtan og ylurinn sigri ævinlega myrkrið og kuldann að lokum.  Veturinn hefur verið bæði mildur og umhleypingasamur í senn.  Langir snjólausir kaflar hafa komið, stundum hlýir og stundum kaldir, en svo kyngdi niður snjó af og til einnig.  Vorið er komið með gróanda í náttúrunni og mannlífinu.  Þess er óskað að komandi vor og sumar færi öllum góða tíð og bjarta tilveru um leið og færðar eru þakkir fyrir samveruna og samstarfið í vetur.   Grundfirðingar senda hlýjar óskir um gott og gleðilegt sumar til allra landsmanna en þó sérstaklega til þeirra sem lent hafa í hremmingum í eldgosinu sem nú stendur yfir í Eyjafjallajökli.

Gámastöðin ekki opin á sumardaginn fyrsta

Fram kemur í hvatningu til íbúa vegna hreinsunarátaks, að gámastððin sé opin mánudaga til föstudaga frá kl. 16.30 til 18.00 og á laugardögum frá kl. 10.00 til 12.00.  Rétt þykir að benda á, að á sumardaginn fyrsta er lokað.  Þessa láðist að geta í auglýsingum um hreinsunarátakið.