Fjórtán stúdentar útskrifast frá Fjölbrautaskóla Snæfellinga

Skessuhorn 23. maí 2010: Föstudaginn 21. maí brautskráði Fjölbrautaskóli Snæfellinga 14 nemendur, alla með stúdentspróf. Af  náttúrufræðibraut útskrifuðust Lilja Margrét Riedel, Sveinbjörn Ingi Pálsson og Sæbjörg Lára Másdóttir. Af félagsfræðabraut útskrifuðust Anna Júlía Skúladóttir, Ásthildur E. Erlingsdóttir, Egill Guðnason, Erla Lind Þórisdóttir, Eva Lind Guðmundsdóttir, Guðmundur Haraldsson, Hallfríður Guðný Ragnarsdóttir, Lárus Gohar Kazmi, Ólafur Hrafn Magnússon, Steinar Darri Emilsson og Sunna Björk Skarphéðinsdóttir. 

Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins í Grundarfirði

 Skessuhorn 22. maí 2010: Fyrstu gestirnir koma upp nýja landganginn. Ljósm. sk.Klukkan 11 í morgun kom fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins til Grundarfjarðar. Það nefnist Athena, er ítalskt en farþegar þess enskir. Áætluð er koma 13 skipa í sumar, flest munu eiga viðdvöl í júlí, eða sjö skip og þar á meðal tvö helgina sem bæjarhátíðin Á góðri stundu verður haldin í lok mánaðarins. Síðasta skipið kemur síðan 12. september.  Runólfur Guðmundsson formaður hafnarstjórnar tók á móti farþegum við komuna í Grundarfjörð í morgun og færði fyrstu gestunum sem stigu á land á nýja hafnarsvæðið blóm og gjafir. Með skipinu eru 540 farþegar og eru 300 þeirra nú í skoðunarferð um Snæfellsnes á rútum. Skipið lætur síðan úr höfn klukkan 23 í kvöld eftir 12 tíma stopp. Áður en haldið verður um borð gefst farþegum kostur á að njóta góða veðursins, fara í verslanir, kaupa handverk, veitingar og annað sem í boði er fyrir ferðamenn í Grundarfirði.

Opnunartími sundlaugar yfir Hvítasunnuhelgina

Laugardaginn 22. maí er opið frá klukkan 13:00 - 17:00, sunnudaginn 23. maí er lokað og mánudaginn 24. maí er opið frá klukkan 13:00 - 17:00. 

Heimsókn frá Paimpol

Í næstu viku mun hópur frakka frá vinabæ Grundarfjarðar í Paimpol í Frakklandi koma í heimsókn til Íslands og skoða landið.  Hópurinn kemur til Grundarfjarðar að kvöldi mánudagsins, annars í hvítasunnu.  Á þriðjudag,  25. maí, er skipulögð dagskrá og er heimamönnum velkomið að taka þátt.  Um morguninn verður farið að bretónska krossinum á Grundarkampi og síðan kl. 10.15 verður athöfn í kirkjunni til þess að minnast sæfarenda frá Paimpol.  Því næst kl. 10.45 er fyrirhugað að vígja gróðurreit á opna svæðinu neðan Ölkelduvegar og verður reitnum gefið nafnið Paimpol garður.  Lúðrasveit Tónlistarskóla Grundarfjarðar mun spila og fulltrúar vinabæjanna munu flytja ávörp.  Síðar um daginn munu gestirnir heimsækja fiskvinnslu GRun og fara í skoðunarferð um Snæfellsnes. Nánari umfjöllun verður um heimsóknina á heimasíðu Grundarfjarðarbæjar Sigríður Finsen Forseti bæjarstjórnar Grundarfjarðar  

Síldin í Grundarfjarðarhöfn rannsökuð

Skessuhorn 19. maí 2010: Runólfur skoðar síld úr höfninni. Ljósm. sk.Í dag voru menn við veiðar á síld í höfninni í Grundarfirði. Voru þetta þeir Runólfur Guðmundsson og Pétur Erlingsson en þeir voru að vinna að rannsóknarverkefni fyrir Hafrannsóknastofnun sem felst í að athuga sýkingu í síldinni. Mest öll síldin er farin úr firðinum en þó er talvart af síld í höfninni að sögn Runólfs. Hafrannsóknastofnun er meðal annars að athuga hvort sú síld sem eftir er yfirgefi ekki fjörðinn sökum sýkingar.  

Glæsilegt móttökusvæði fyrir ferðamenn af skemmtiferðaskipum vígt við hátíðlega athöfn

Mynd Sverrir Karlsson Þriðjudaginn 18. maí sl. var nýtt móttökusvæði fyrir ferðamenn af skemmtiferðaskipum ásamt nýrri flotbryggju vígt við hátíðlega athöfn í Grundarfjarðarhöfn.  Við athöfnina var gerð grein fyrir helstu kostnaðar- og magntölum í framkvæmdinni sem samtals hefur staðið yfir í þrú ár.  Framkvæmdin fólst í dýpkun hafnarinnar, gerð sjóvarnargarðs sem er með öldudempandi fláa, kaupum og niðursetningu flotbryggju, uppsteypu landstólpa, uppsetningu á landgangi, gerð gangstígar og plana fyrir ferðafólk og fólksflutningabíla.  Svæðið hefur verið afmarkað með "vitum" og komið var fyrir bekkjum og borðum fyrir ferðafólk og heimamenn.  Öll framkvæmdin kostaði á framkvæmdatímabilinu 33 miljónir króna.  Styrkur fékkst frá iðnaðarráðuneytinu í þetta verkefni að fjárhæð kr. 6,3 milljónir.  Mannvirkin voru blessuð af sóknarprestinum Sr. Aðalsteini Þorvaldssyni.  Tveir fullorðnir frumkvöðlar í Grundarfirði þeir Guðmundur Runólfsson, útgerðarmaður og skipstjóri og Elís Guðjónsson, fv. hafnarvörður, klipptu á borða og vígðu þar með hina nýju aðstöðu formlega.  Viðstöddum var boðið í kaffi og meðlæti á svæðinu eftir athöfnina.  Hér má sjá myndir af vígslunni. Myndir frá Sverri Karlssyni Myndir frá Hirti H Kolsöe/Jóni P Péturssyni

Karlakórinn Kári

Sameiginlegur kór félaga úr Grundarfirði og Stykkishólmi sem hefur heitið karlakórinn Kári verða með vortónleika á Snæfellsnesi sjá auglýsingu hér 

Sundnámskeið

Fyrirhugað er að halda sundnámskeið fyrir börn fædd 2003-2004 dagana 14.-18. júní, ef næg þátttaka fæst.  Námskeiðið verður 5 x 40 mínútur og  kostar 4.000 kr. sem greiðist í fyrsta tíma., en Grundarfjarðarbær greiðir niður hluta námskeiðsins Sundkennarar verða Ásdís og Inga Magný og fer skráning fram hjá þeim.  Tímasetning námskeiðsins verður auglýst síðar. Vonumst til að sjá sem flesta J   Kveðja, Ásdís: 899-3942  Inga Magný: 862-2985

Mötuneyti FSN

Óskað er eftir rekstaraðila til þess að reka mötuneyti FSN skólaárið 2010-2011. Áhugasamir hafi samband við skólameistara fyrir 1. júní 2010. Jón Eggert Bragason Skólameistari joneggert@fsn.is sími.430-8400  

Framlagning kjörskrár vegna sveitarstjórnarkosninga

Kjörskrá vegna sveitarstjórnarkosninganna þann  29. maí 2010, verður lögð fram þann 19. maí 2010.   Kjörskráin mun liggja frammi til skoðunar á skrifstofu Grundarfjarðarbæjar mánudag - fimmtudag frá kl. 09.30 - 15.30 og föstudag frá kl. 09:30 – 14:00.   Sveitarstjórn er heimilt að taka mál vegna kjörskrár til meðferðar allt fram á kjördag.   Sjá nánar auglýsingu.