„Snæfellsnes á tímamótum – hamingja í heimabyggð“ var yfirskrift íbúafunda sem Kvarnir, áhugahópur um framtíðina á Snæfellsnesi, héldu nýverið í samvinnu við sveitarfélög. Fundirnir voru fjórir, í Snæfellsbæ, á Breiðabliki, í Grundarfirði og Stykkishólmi. Eftir því sem næst verður komist er þetta í fyrsta skipti sem fram fer almenn umræða meðal íbúa um framtíðarsýn fyrir Snæfellsnes.
Samkvæmt skilaboðum fundanna er mikilvægt nú á breyttum tímum að samfélögin á Nesinu snúi bökum saman og líti á svæðið sem eina heild. Ýmsir telja tímabært að sameina sveitarfélögin en aðrir vilja leggja áherslu á sjálfsprottna samvinnu og auka hana enn frekar en nú er.