- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
„Snæfellsnes á tímamótum – hamingja í heimabyggð“ var yfirskrift íbúafunda sem Kvarnir, áhugahópur um framtíðina á Snæfellsnesi, héldu nýverið í samvinnu við sveitarfélög. Fundirnir voru fjórir, í Snæfellsbæ, á Breiðabliki, í Grundarfirði og Stykkishólmi. Eftir því sem næst verður komist er þetta í fyrsta skipti sem fram fer almenn umræða meðal íbúa um framtíðarsýn fyrir Snæfellsnes.
Samkvæmt skilaboðum fundanna er mikilvægt nú á breyttum tímum að samfélögin á Nesinu snúi bökum saman og líti á svæðið sem eina heild. Ýmsir telja tímabært að sameina sveitarfélögin en aðrir vilja leggja áherslu á sjálfsprottna samvinnu og auka hana enn frekar en nú er.
Fram kom á fundunum að sérstaða Snæfellsness felst meðal annars í því frumkvæði sem svæðið allt og einstök sveitarfélög hafa tekið í sjálfbærri þróun, t.d. með Green Globe umhverfisvottun á starfsemi sveitarfélaganna. Einstök náttúra, þjóðgarður, verndarsvæði (Breiðafjarðar), matvælaframleiðsla bæði í landbúnaði og sjávarútvegi, saga, menning og samfélag, er meðal þeirra auðlinda sem Snæfellsnes byggir á. Mikilvægt er aðmati þátttakenda að heimamenn þekki vel sitt svæði, séu stoltir af því og vinni saman að því að gera sem mest úr þeim tækifærum sem svæðið býður upp á. Þannig verður til nýsköpun sem eykur búsetugæði og hamingju íbúanna og laðar að nýja íbúa og gesti. Áhugi er á að koma á almenningssamgöngum þannig að Snæfellsnesið verði enn frekar eitt atvinnu- og þjónustusvæði. Standa þarf vörð um búsetugæði í dreifbýlinu að mati íbúa þar og vega skólamál þar þungt.
Þegar horft er á Snæfellsnes í heild er fjölbreytnin gríðarlegur styrkur og liður í því að nýta sóknarfæri svæðisins er að íbúar upplifi sig sem hluta af þessari heild. Samkvæmt skilaboðum fundanna hafa Snæfellingar trú á sinni heimabyggð og eru tilbúnir til að gera meira úr þessum sóknarfærunum á nýjum og breyttum tímum.
Fram kom í umræðum að hamingja í heimabyggð er að miklu leyti undir einstaklingunum sjálfum komin. Séu einstaklingarnir hamingjusamir, eru þeir fúsari til að taka þátt í samfélaginu og lifandi og virkt samfélag stuðlar aftur að hamingju einstaklinganna.
Meðlimir Kvarna eru nú að leita leiða til að fylgja skilaboðum fundanna eftir með frekari umræðu og þróunarskrefum og verður sagt frekar frá því á næstunni.
Hægt er að sjá samantektir frá hverjum fundi fyrir sig á vefnum www.stykkisholmsposturinn.is, undir „Aðsent efni“ og á www.ildi.is undir „Hvað er títt“. Þar eru einnig myndir frá fundunum undir „Hvað er að sjá“.
Kvarnir vilja þakka sveitarfélögunum á Snæfellsnesi fyrir að vera bakhjarlar fundanna og stýrihópi fyrir undirbúningsvinnu. Sérstakar þakkir fá þeir íbúar sem tóku þátt í fundunum. Áfram Snæfellingar!
Með kveðju fyrir hönd Kvarna,
Sigurborg Kr. Hannesdóttir Grundarfirði,
Erla Björk Örnólfsdóttir Snæfellsbæ,
Róbert A. Stefánsson Stykkishólmi
Nánari lýsingu á verkefninu má finna hér.