Félag eldri borgara

Vegna undirbúnings þorrablóts Hjónaklúbbsins verður fyrsta spilakvöld ársins fimmtudagskvöldið 24. janúar klukkan 20:00 í Fákaseli. Fimmtudagskvöldið 7. febrúar verður spilað í samkomuhúsinu klukkan 20:00   Þorrablót eldri borgara verður svo haldið þann 9. febrúar.   Við minnum á leikfimina á þriðjudögum og fimmtudögum klukkan 10:30 og handavinnuna á þriðjudögum klukkan 14:00.

Útblástur bíla og gangandi vegfarendur

Viljum minna fólk á að drepa á bílum sínum meðan skroppið er inn í búð eða annað. Að skilja bíla eftir í gangi veldur mikilli mengun og þá sérstaklega fyrir gangandi fólk. Einnig er þörf ábending til bílstjóra að leggja bílum sínum ekki upp á gangstéttir eða þannig að gangandi vegfarendur lendi í erfiðleikum með að komast ferða sinna. Sérstaklega þessa dagana meðan snjórinn er og færðin slæm fyrir gangandi vegfarendur 

Virðum bílastæði fatlaðra

Af gefnu tilefni er fólk hvatt til þess að virða rétt fatlaðra að aðgengi íþróttahússins. Borið hefur á því að lagt sé í bílastæði fatlaðra sem er sérmerkt þeim. Sýnum lágmarks kurteisi og virðum þennan sjálfsagða rétt.   

Hópleikurinn 1 x 2

Hér fyrir neðan má sjá leikina í deildarkeppni 1 x 2. Úrslitin í umferð eitt og tvo og hverjir spila við hverja i umferð þrjú og fjögur. 1. deild 2. deild

Könnun á þörf fyrir þriggja fasa rafmagn

Um þessar mundir er verið að kanna áhuga og þörf fyrir þriggja fasa rafmagn á býlum í ábúð.  Sent hefur verið bréf til ábúenda og þeir eru beðnir um að hafa samband við skipulags- og byggingafulltrúa Grundarfjarðarbæjar og gera grein fyrir því hvort þörf er fyrir þrífösun.  Könnun þessi er gerð fyrir iðnaðarráðuneytið sem hyggst móta aðgerðaáætlun í framhaldinu.   Athugið að skila þarf upplýsingum til iðnaðarráðuneytisins fyrir 1. febrúar n.k. svo koma þarf ábendingum til skipulags- og byggingafulltrúa í síðustu viku janúar. 

Innkaupareglur Grundarfjarðarbæjar.

Innkaupareglur Grundarfjarðarbæjar voru samþykktar á bæjarstjórnarfundi þann 10. janúar 2007. Þeim er ætlað að stuðla að vönduðum og hagkvæmum innkaupum Grundarfjarðarbæjar og tryggja gæði, þjónustu og verka sem bærinn kaupir.  Ennfremur að stuðla að því að Grundarfjarðarbær hagi innkaupum sínum í samræmi við góða viðskiptahætti og tryggja að stjórnsýsla á sviði innkaupa sé vönduð. Innkaupareglur Grundarfjarðarbæjar er hægt að skoða með því að fara inn á stjórnsýsla og síðan reglur og samþykktir.  

Nýr starfsmaður á skrifstofu Grundarfjarðarbæjar

Ráðið hefur verið í stöðu þjónustufulltrúa á skrifstofu Grundarfjarðarbæjar.  Kristín Pétursdóttir sem gegnt hefur þeirri stöðu undanfarið hefur tekið við starfi aðalbókara og ritara.  Í starf þjónustufulltrúa hefur verið ráðin Arna Hildur Pétursdóttir og er hún boðin velkomin til starfa.  Arna Hildur starfaði áður í útibúi Kaupþings í Grundarfirði sem gjaldkeri.

Frumvörp um grunnskóla, leikskóla, framhaldsskóla og um ráðningar kennara og skólastjórnenda.

Menntamálaráðherra hefur lagt fram frumvörp að lögum um grunnskóla, leikskóla, framhaldsskóla og um ráðningar kennara og skólastjórnenda.  Menntamálanefnd Alþingis hefur óskað eftir umsögnum um frumvörpin.  Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar hefur sett vinnuhóp til þess að fara yfir frumvörpin og gera tillögur að umsögnum.  Tveir fulltrúar úr bæjarstjórninni eru í vinnuhópnum og formaður fræðslu- og menningarmálanefndar.  Sérstaklega er óskað eftir því að foreldrafélög og nemendafélög fari yfir frumvörpin og láti í té umsagnir ef vilji er fyrir hendi.  Unnt er að koma ábendingum til vinnuhóps bæjarstjórnarinnar á skrifstofu Grundarfjarðarbæjar." Hér fyrir neðan er hægt að skoða frumvörpin: Frumvarp um framhaldsskóla Frumvarp um grunnskóla Frumvarp um leikskóla Frumvarp um kennara  

Kristín Steinsdóttir og tilvera bókasafna

Kaffispjall - Hlutverk og tilvera bókasafna. Viðtal við Önnu Torfadóttur og Ingibjörgu Rögnvaldsdóttur frá Borgarbókasafninu í Morgunþætti Rásar 1  þann 11. jan. 2008. Í sama þætti er fjallað um Kristínu Steinsdóttur en bók hennar, Á eigin vegum, var nýlega tilnefnd til Norrænu bókmenntaverðlaunanna. Sjá vefupptöku. Sjá meira á vef bókasafnsins  

Notum reykskynjara.

Slökkvilið Grundarfjarðar hefur sent frá sér bréf til þess að minna húseigendur á að huga að því hvort reykskynjarar séu í öllum híbýlum, athuga hvort skipta þurfi um rafhlöður og hvort þörf sé á að bæta við reykskynjurum. Hér má sjá bréfið frá slökkviliðinu.