- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Eftirfarandi frétt er á vef Skessuhorns:
Fjallahjólabrunkeppnin sem fram fór í fyrsta sinn á síðasta sumri á Jökulhálsi sem sérstakt norðurslóðaverkefni með tilstyrk Evrópusambandsins, var áformuð öðru sinni laugardaginn 29. júlí. Þegar til átti að taka voru forsvarsmenn Hjólreiðafélags Reykjavíkur ekki ánægðir með brautina sem slíka og var því ákveðið að flytja hana í brekkurnar ofan við Grundarfjörð. Þar lá leiðin framhjá vatnstanki Grundfirðinga og flaug einum keppenda í hug að kalla þetta Tankatrylli. Þar fór keppnin því fram á laugardag með þátttöku 6 hjólreiðakappa úr Hjólreiðafélagi Reykjavíkur sem sýndu snilldartakta á hjólum sínum. Teymdu þeir hjól sín upp en brunuðu síðan niður tvær ferðir hver.
Að sögn forsvarsmanna HSH, sem annaðist framkvæmd keppninnar í samvinnu við Hjólreiðafélagið og Héraðsnefnd Snæfellinga, voru þátttakendur mjög ánægðir með þessa braut og var haft að orði að hafa hana á þessum slóðum framvegis. Verðlaunaafhending fór síðan fram á hátíðarsvæði niður við höfn en þar stóð sem hæst bæjarhátíð Grundfirðinga “ Á góðri stund.” Sigurvegari í bruninu varð Helgi Berg Friðþjófsson sem er Danmerkurmeistari í fjallahjólabruni.