Litlu jólin í grunnskólanum

  Litlu jólin voru haldin hátíðleg í grunnskólanum síðasliðinn föstudag. Þessi hátíðlega stund hófst á hugvekju Sr. Aðalsteins og síðan var dansað í kringum jólatréð. Að dansi loknum voru stofujól bekkjanna.  

Útskrift í Fjölbrautaskóla Snæfellinga

  Þann 19. desember útskrifaði Fjölbrautarskóli Snæfellinga 22 nemendur, við hátíðlega athöfn á Sléttu, hátíðarsal skólans. Athöfnina hófu útskriftarneminn Hafþór Ingi Þorgrímsson,  Mattías Arnar Þorgrímsson og Sigmar Logi Hinriksson með flutningi lagsins „Ég sé þig kannski seinna“  sem hljómsveitin Á móti sól gaf út. Þá útskrifaði Guðbjörg Aðalbergsdóttir skólameistari 20 nýstúdenta og 2 vélstjóra. Sigrún Björk Sævarsdóttir  útskrifaðist á tveimur og hálfu ári og hlaut mörg verðlaun. Að lokum söng Sigrún Björk Sævarsdóttir nýstúdent  lagið Quando men vo‘  eftir Puccini við meðleik Lázló Petö. Að athöfn lokinni var gengið til kaffisamsætis í boði skólans.  

Skíðalyftan er opin

Skíðalyftan er opin til 16:00 í dag, laugardag, og í tilefni opnunar er gjaldfrjálst. Á morgun, sunnudag, er lyftan opin frá 11:00-16:00. Gjald: 300 Börn, 500 fullorðnir - tíu ferða kort til sölu með afslætti.   Börn þurfa að vera í fylgd með fullorðnum. Þeir sem vilja aðstoða skíðadeildina við rekstur skíðasvæðisins er bent á að hafa samband við Jón Pétur í síma 863-1718.   Skíðadeild UMFG

Fjárhagsáætlun Grundarfjarðarbæjar 2009 samþykkt samhljóða 18. desember 2008

Fjárhagsáætlun Grundarfjarðarbæjar fyrir árið 2009 var samþykkt samhljóða á fundi bæjarstjórnar þ. 18. desember sl.  Fjárhagsáætlunin er í þetta sinn afgreidd með halla upp á tæpar 53 milljónir króna.  Tekjur bæjarins munu minnka á næsta ári frá því sem hefði átt að vera við eðlilegar aðstæður um 60 - 70 milljónir króna.  Fjármagnskostnaður hefur aukist verulega og sér ekki fyrir endann á því ef gengi krónunnar heldur áfram að falla og ef verðbólgan æðir áfram.  Þessi staða kallar óhjákvæmilega á það, að einhver niðurskurður verður á flestum sviðum.  Bæjarfulltrúar og nokkrir af embættismönnum bæjarins taka á sig beina kjaraskerðingu á bilinu 5 - 10%.  Draga þarf saman þjónustu í einhverjum mæli en þess var gætt að fara afar varlega í öllu sem lýtur að þörfum barna og

Hjá Grundarfjarðarbæ verða gjaldskrár og álagningarprósentur að mestu óbreyttar á næsta ári

Með afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár var ákveðið að gjaldskrár og álagningarprósentur verði að mestu óbreyttar á næsta ári frá því sem verið hefur.  Nauðsynlegt mun þó reynast að hækka útsvarsprósentu í það hámark sem lög munu kveða á um.  Þetta er nauðsynlegt til þess að sveitarfélagið fái eðlilegan hlut í framlögum frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, en þau eru skilyrt um fulla nýtingu tekjustofna.  Fasteignaskattsprósentum verður þó ekki breytt og þjónustugjöld verða þau sömu utan þess að nauðsynlegt er að hækka sorpgjöldin.  Gjöld fyrir sorpmeðhöndlun eiga að standa undir kostnaði skv. ákvæðum laga og er reynt í áföngum að ná því takmarki en þó þannig að þetta gerist í smáum skrefum á hverju ári.  Vegna mikils kostnaðar við vistun eins til tveggja ára barna í leikskólanum, er stefnt að hækkun

Foreldrum leikskólabarna tryggt aukið svigrúm til aðlögunar

Á fundi bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar þ. 18. desember sl. var samþykkt að veita foreldrum leikskólabarna aukið rými til aðlögunar að nýjum opnunartíma og vistunarmöguleikum í leikskólanum.  Foreldrar hafa rými til 1. febrúar til þess að aðlaga sig að nýjum vistunarmöguleikum.  Verði einhver mál illleysanleg vegna vinnu eða annarra aðstæðna, er foreldrum velkomið að ræða við leikskólastjóra eða bæjarstjóra um það og verða öll slík mál skoðuð vandlega. 

Leiðrétting á auglýsingu

Barna- og fjölskyldumessan sem verður þann 26. desember verður klukkan 14:00 en ekki klukkan 17:00 eins og auglýst var í Vikublaðinu.

Jólatónleikar tónlistarskólans

Hinir árlegu jólatónleikar Tónlistarskóla Grundarfjarðar voru haldnir í húsakynnum Fjölbrautaskóla Snæfellinga í gær. Húsið var fullt og reiknað með því að um 250 manns hafi verið á staðnum. Ungir grundfirskir tónlistarmenn stigu á stokk ásamt kennurum tónlistarskólans og dekruðu við gesti með ljúfri jólatónlist. Skólahljómsveitir eldri og yngri nemenda skólans tóku lagið, tveir kórar stigu á stokk og lúðrasveitin sýndi listir sínar. Einnig var risasamspil þar sem hvorki meira né minna en 50 manns spiluðu saman. Tókust tónleikarnir með eindæmum vel og greinilegt að öflugt starf tónlistarskólans er að skila sér. Einnig má geta þess að á tónleikunum var formleg opnun á nýrri og glæsilegri vefsíðu tónlistarskólans.

Tilkynning til vélsleðamanna.

  Það eru vinsamleg tilmæli til vélsleðamanna að aka ekki um eða yfir Steinatjörn eða tjaldsvæðin í Grundarfirði.  Verið er að byggja upp svæðin og eru þau mjög viðkvæm enn sem stendur. Allur akstur vélknúinna ökutækja getur valdið stóru tjóni.   Tæknideild Grundarfjarðarbæjar  

Rusl

Á mánudaginn 22. desember frá kl.10.00 verða ruslatunnur bæjarins tæmdar. Vinsamlegast mokið snjó frá ef þess þarf.