- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Fjárhagsáætlun Grundarfjarðarbæjar fyrir árið 2009 var samþykkt samhljóða á fundi bæjarstjórnar þ. 18. desember sl. Fjárhagsáætlunin er í þetta sinn afgreidd með halla upp á tæpar 53 milljónir króna. Tekjur bæjarins munu minnka á næsta ári frá því sem hefði átt að vera við eðlilegar aðstæður um 60 - 70 milljónir króna. Fjármagnskostnaður hefur aukist verulega og sér ekki fyrir endann á því ef gengi krónunnar heldur áfram að falla og ef verðbólgan æðir áfram. Þessi staða kallar óhjákvæmilega á það, að einhver niðurskurður verður á flestum sviðum. Bæjarfulltrúar og nokkrir af embættismönnum bæjarins taka á sig beina kjaraskerðingu á bilinu 5 - 10%. Draga þarf saman þjónustu í einhverjum mæli en þess var gætt að fara afar varlega í öllu sem lýtur að þörfum barna og
fjölskyldna. Þó verður ekki hjá því komist að einfalda þjónustuframboð t.d. í leikskólanum, bókasafninu, þjónustumiðstöðinni og að einhverju leyti í grunnskólanum. Það verður þó haft að leiðarljósi að enginn lendi í alvarlegum vandræðum og öll mál verða skoðuð sem upp kunna að koma. Grunnþjónusta við einstaklinga og fjölskyldur verður varin eins og mögulegt er. Segja má að staðan í dag færi okkur aftur í tímann varðandi þjónustuframboð, hugsanlega um 20 - 25 ár eða svo. Ákveðið var á bæjarstjórnarfundinum að gefa foreldrum barna í leikskólanum aukið rými til þess að aðlaga sig að takmarkaðri þjónustu varðandi vistunarmöguleika og opnunartíma leikskólans eða til 1. febrúar á næsta ári. Ef foreldrar lenda í vandræðum sem ekki er unnt að leysa vegna vinnu eða annarra aðstæðna, verða þau mál skoðuð sérstaklega og metið hvernig unnt verður að bregðast við þeim. Haldnir verða fundir með starfsmönnum og málin skýrð. Einnig verða haldnir fundir með foreldrum leikskólabarna og fyrirhugað er að haldinn verði opinn íbúafundur um fjárhagsáætlunina í fyrri hluta janúar á næsta ári.