- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Hinir árlegu jólatónleikar Tónlistarskóla Grundarfjarðar voru haldnir í húsakynnum Fjölbrautaskóla Snæfellinga í gær. Húsið var fullt og reiknað með því að um 250 manns hafi verið á staðnum. Ungir grundfirskir tónlistarmenn stigu á stokk ásamt kennurum tónlistarskólans og dekruðu við gesti með ljúfri jólatónlist. Skólahljómsveitir eldri og yngri nemenda skólans tóku lagið, tveir kórar stigu á stokk og lúðrasveitin sýndi listir sínar. Einnig var risasamspil þar sem hvorki meira né minna en 50 manns spiluðu saman. Tókust tónleikarnir með eindæmum vel og greinilegt að öflugt starf tónlistarskólans er að skila sér. Einnig má geta þess að á tónleikunum var formleg opnun á nýrri og glæsilegri vefsíðu tónlistarskólans.
Foreldrar barna í tónlistarskólanum sáu um veitingar og skreyttu salinn í hátíðarbúning. Nýlega stofnaður áhugahópur um framgöngu tónlistar í Grundarfirði notaði þetta tækifæri til að hleypa af stað söfnunarátaki. Markmið hópsins er að safna fyrir nýju píanói fyrir tónlistarskólann sem staðsett verður í samkomuhúsi bæjarins, en það gamla er komið til ára sinna. Í forsvari fyrir hópinn er Ingibjörg Sigurðardóttir (s:840-5728) og þeim sem vilja leggja málefninu lið er bent á að hafa samband við hana.
Myndir af tónleikunum má finna hér.