BLAK BLAK BLAK BLAK

Íþróttahúsinu Grundarfirði. Allra síðasti heimaleikur UMFG karla. Fimmtudaginn 19.3. 2009 kl: 20.00 (átta) UMFG– Afturelding 15 ára og yngri frítt 16 ára og eldri 500.

SAFT fyrirlestur

Fyrirlestur á vegum SAFT verður haldin í F.S.N. í dag 17. mars klukkan 20.00. Foreldrafélag grunnskólans býður foreldrum og forráðamönnum barna í skólanum að koma og hlusta á erindið, en markmiðið er m.a. að benda á jákvæða og örugga notkun netsins. Hér má skrá sig á fyrirlesturinn. Kveðja Foreldrafélag Grunnskóla Grundarfjarðar

Forsetinn heimsækir Grundarfjörð

  Fimmti forseti lýðveldisins Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, heimsækir Grundarfjörð miðvikudaginn 18. mars. Forsetinn hittir bæjarfulltrúa og embættismenn um morguninn. Síðan heimsækir hann skólana í bænum og einnig fyrirtæki og aðrar stofnanir. Heimsókninni lýkur um hádegi og þá heldur forsetinn til Snæfellsbæjar.

Sylvía í stjörnuleit

  Næstkomandi föstudag munu ellefu einstaklingar keppa um áframhaldandi þáttöku í hinum vinsæla sjónvarpsþætti Idol–stjörnuleit sem er sýndur á Stöð 2. Meðal keppenda eru Grundfirðingurinn Sylvía Rún Guðnýjardóttir og Hólmarinn Matthías Arnar Þorgrímsson, þekktur af störfum sínum sem draugabani. Keppnin verður sýnd í beinni útsendingu frá Smáralind og munu úrslit ráðast af símakosningu landsmanna. Við óskum þeim Matta og Sylvíu okkar góðs gengis.

Bocciamót

    Á laugardaginn síðastliðinn var keppt í boccia hér í íþróttahúsinu. Mótið var haldið af félagi eldriborgara í Grundarfirði. Var þetta í fyrsta sinn sem  haldið er slíkt mót hér í bæ og var mótið sett af Guðmundi Inga bæjarstjóra.  Þrátt fyrir leiðindaveður komu fjögur lið úr Borgarnesi og tvö úr Snæfellsbæ, en liðin frá okkur voru sex talsins og var hún Pálína Gísladóttir stjarna mótsins. Spilað var á þremur völlum og var mótið vel heppnað í alla staði. Keppnin var jöfn og stórskemmtileg, heimamenn fengu silfur og brons en Borgnesingar gullið. Úr félagi eldri borgara eru að jafnaði 22-24 sem æfa boccia í hverri viku og nú eru stífar æfingar framundan því í byrjun maí verður vormót í Borgarnesi.

Frjálsar íþróttir

Það er frí í frjálsum íþróttum, þriðjudaginn 17. mars af óviðráðanlegum ástæðum. Kristín H. 

Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum

Helgina 28 feb – 1 mars fór fram meistaramót Íslands, 11 – 14 ára í frjálsíþróttaaðstöðunni í Laugardal.  Keppendur frá UMFG voru 15 talsins en í heildina voru 28 keppendur frá HSH.  Þar sem keppendur voru svo margir náðist í 4 boðhlaupssveitir í 4 x 200 m boðhlaup, og má segja þeim til hróss að engin sveit gerði ógilt.  En töluvert var um að sveitir gerðu ógilt í hlaupunum.  Keppendur UMFG stóðu sig með sóma en þau voru öll að keppa í fyrsta skipti innanhúss í Laugardalnum og ekki laust við smá aðstöðusjokk.  Tveir keppendur náðu inn í úrslit í kúluvarpi 11 ára, þau Hrönn Þorsteinsdóttir og Svanlaugur Atli Emilsson sem var flottur árangur hjá þeim. Fararstóri og þjálfari UMFG þakkar öllum foreldum sem lögðu fram aðstoð sína. Kristín H.  

Tígulegur haförn í Kolgrafafirði

  Sverrir Karlsson fór í Kolgrafafjörð í morgun og náði skemmtilegum myndum af haferni á flugi. Myndir Sverris má finna hér. Margir hafa séð erni á svæðinu undanfarið og oft marga saman. Í byrjun mars sáust heilir 14 ernir. Þetta telst mjög óvenjulegt og ef einhvern tíman fólk ætti að drífa sig af stað í fuglaskoðun þá er það núna.

Margir í afmæli Barbie

50 ára afmæli Barbie var haldið hátíðlegt í Sögumiðstöðinni um helgina. Um 250 manns mættu á svæðið og þar af voru 7 jafnöldrur dúkkunnar frægu. Þetta þótti takast svo vel að stefnt er að því að opna sýninguna aftur um páskana.

Stóra upplestrarkeppnin 2008-2009

Lokahátíðin var haldin í Ólafsvíkurkirkju í gær 10. mars. Þrír fulltrúar frá grunnskólunum í Grundarfirði, Stykkishólmi og Snæfellsbæ lásu ljóð eftir Örn Arnarson, valda kafla úr bókinni Leyndardómar ljónsins eftir Brynhildi Þórarinsdóttur og að lokum ljóð að eigin vali. Allir nemendurnir stóðu sig frábærlega og var einstaklega gaman að sjá hve sjálfsöruggir og prúðir þeir voru.