Eftirfarandi grein birtist í Skessuhorninu fyrir skömmu, um verslun í Grundarfirði. Það er Gunnar Kristjánsson í Grundarfirði sem ritar svo:
Það kemur mörgum á óvart sem kemur til Grundarfjarðar hversu margar verslanir er að finna í ekki stærra byggðarlagi. Það má einnig telja góðan kost að þótt þær séu ekki allar undir sama þaki er stutt á milli þeirra. Því ætti í þokkalegu veðri ekki að vera mikið mál þ.e. ef menn eru ekki að kaupa þeim mun meira, að leggja bílnum á góðum stað og taka síðan rúnt á milli verslananna gangandi. Við gerum það í þetta sinn leggjum bílnum á lóð Sögumiðstöðvarinnar við gatnamót Hrannarstígs og Grundargötu og röltum síðan yfir Grundargötuna á nýlagðri upphækkaðri gangbraut. Við Hrannarstíginn sem liggur þvert á Grundargötuna niður að höfn, er fyrst á vinstri hönd að finna Essó – Hraðbúð þar sem bíleigendur finna auk eldsneytis flest það sem nauðsynlega þarf til bílreksturs en þar er einnig að finna fjölmargt matarkyns, fatnað, skyndibita og margt fleira .