Kona gengur til liðs við Slökkvilið Grundarfjarðar

                                                            Guðrún Ósk Hrólfsdóttir hefur gengið í slökkvilið Grundarfjarðar. Þetta er í fyrsta skipti sem kona er skráð í slökkviliðið og því mikil tímamót. Á æfingu liðsins í síðustu viku mættu tveir nýliðar, þau Guðrún Ósk og Árni Þórarinsson. Á myndinni hér að ofan eru nýliðarnir komnir í fullan skrúða og tilbúnir að hefjast handa.

Foreldravika í Tónlistarskóla Grundarfjarðar

Dagana 6. – 8. október sl. buðu tónlistarkennarar Tónlistarskóla Grundarfjarðar foreldrum/forráðamönnum nemenda að heimsækja tónlistarskólann. Foreldrar sóttu þá hljóðfæratíma með börnum sínum og gafst kostur á að fylgjast með hvernig kennslan færi fram auk þess sem kennarar ræddu um æfingatíma, framfarir og fleira sem viðkemur tónlistarnámi barnanna.

Ertu með lögheimili á réttum stað?

Lögheimili manns er sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu, sbr. lög um lögheimili nr. 21/1990. Samkvæmt lögum nr. 73/1952 um aðsetursskipti, ber íbúum að tilkynna um flutning til íbúaskrár innan viku frá flutningi, bæði flutning innanbæjar og milli sveitarfélaga. Tilkynna ber flutninga á bæjarskrifstofu Grundarfjarðar, þar er opið frá kl. 09:30-15:30 alla virka daga. Tilkynningarnar eru síðan sendar til Hagstofu Íslands. Eyðublöð er hægt að nálgast rafrænt hér.  

Unnið með haustið á Sólvöllum

Í september var unnið með haustið í vinnustundum í Leikskólanum Sólvöllum. Byrjað var á því að fara í vettvangsferðir og umhverfið skoðað í haustlitunum. Safnað var saman  efnivið úr náttúrunni til að vinna með. Skipt var í hópa eftir aldri og var unnið verkefni um haustið eftir áhugasviði hvers hóps. 

Green Globe 21

Vakin er athygli á nýrri undirsíðu á Grundarfjarðarvefnum vegna Green Globe 21. Neðarlega til hægri er smellt á merki Green Globe 21 til að komast á síðuna. Á henni verða almennar upplýsingar og fréttir af Green Globe.  

Stefna í sjálfbærri þróun umhverfis- og samfélagsmála Snæfellsness til ársins 2015

  Green Globe 21 er alþjóðleg umhverfisvottunaráætlun sem vottar sjálfbæra ferðaþjónustu og samfélög.   Vefsíða Green Globe 21   Þátttakendur eru sveitarfélögin: Eyja- og Miklaholtshreppur Grundarfjarðarbær Helgafellssveit Snæfellsbær Stykkishólmsbær ásamt Þjóðgarðinum Snæfellsjökli     Skoða skýrsluna í heild  

Bæjarstjórnarfundur

49. fundur bæjarstjórnar verður haldinn í samkomuhúsinu á morgun, 14. október, kl.17.00. Á dagskrá eru m.a. fundargerðir nefnda og ráða,endurskoðuð fjárhagsáætlun 2004, kjör fulltrúa á aðalfund SSV, landsþing o.fl., kynning á ferð sveitarstjórnarmanna til Noregs, kynning á fyrirhugaðri menningarhátíð, ýmis gögn um Green Globe 21 og önnur gögn til kynningar. Fundurinn er öllum opinn. Bæjarstjóri  

Búferlaflutningar á 3. ársfjórðungi

Hagstofa Íslands hefur birt nýjar tölur um búferlaflutninga fyrir þriðja ársfjórðung ársins 2004. Fyrstu níu mánuði ársins urðu breytingar á íbúafjölda á Vesturlandi eftirfarandi: Brottfluttir umfram aðflutta á Vesturlandi voru 113. Á Akranesi fjölgaði um 27, í Borgarbyggð fækkaði um 33, í Stykkishólmi fækkaði um 25, í Snæfellsbæ fækkaði um 45 og í Grundarfirði voru brottfluttir umfram aðflutta 5, 59 voru aðfluttir og 64 burtfluttir. Vakin er athygli á því að fæðingar og andlát eru ekki inní þessum tölum.  

Snæfellsnes hefur mætt viðmiðum GREEN GLOBE 21

Sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi og Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull hafa mætt viðmiðum GREEN GLOBE 21. Til stendur að veita sveitarstjórnunum BENCHMARKING (viðmiðunar) viðurkenninguna við hátíðlega athöfn á ferðasýningunni World Travel Mart þann 10. nóvember næstkomandi en sá dagur sýningarinnar er tileinkaður ábyrgri ferðaþjónustu.

Hermann Geir og Berglind Ósk best !

Á lokahófi knattspyrnudeildar Víkings í Ólafsvík var Hermann Geir Þórsson valinn besti leikmaðurinn. Á sama tíma var lokahóf hjá 2.fl kvenna, sem kepptu undir merkjum HSH í sumar og þar var Berglind Ósk Kristmundsdóttir valin besti leikmaðurinn og systir hennar Birna Kristmundsdóttir valin efnilegust. Til hamingju með þetta !