Sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi og Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull hafa mætt viðmiðum GREEN GLOBE 21. Til stendur að veita sveitarstjórnunum BENCHMARKING (viðmiðunar) viðurkenninguna við hátíðlega athöfn á ferðasýningunni World Travel Mart þann 10. nóvember næstkomandi en sá dagur sýningarinnar er tileinkaður ábyrgri ferðaþjónustu.

Þetta er einstök viðurkenning og eru sveitarfélögin á Snæfellsnesi sjötta svæðið í heiminum sem hlýtur hana og jafnframt fyrstu sveitarfélög á norðurhveli jarðar sem ná þessum árangri. Einnig er þetta í fyrsta sinn sem fimm sveitarfélög leita sameiginlega eftir því að mæta viðmiðum og fá vottun frá GREEN GLOBE 21. Með þessari viðurkenningu fá sveitarfélögin og þjóðgarðurinn leyfi til að nota merki GREEN GLOBE 21 án haksins. Merkið má nota á allt kynningarefni frá þeim, á bréfsefni þeirra og umslög, á vefsíður og í skrifstofum. Í raun hvetur Green Globe 21 sveitarfélögin og þjóðgarðinn til að flagga merkinu við öll möguleg tækifæri til að vekja athygli á árangri sínum.

 

Til að fylgja eftir stefnu sinni í vottunarmálum setja sveitarfélögin og þjóðgarðurinn sér ákveðna framkvæmdaáætlun fyrir það sem eftir er af árinu 2004 og árið 2005. Mæta þarf viðmiðum GREEN GLOBE 21 árlega og sýna mælanlegan árangur milli ára í ákveðnum málaflokkum. GREEN GLOBE 21 eru alþjóðleg vottunarsamtök sem votta sjálfbæra ferðaþjónustu um allan heim. Þau byggja grunninn að síðum stöðlum á Staðardagskrá 21 og Dagskrá 21, enda stofnuð í framhaldi af Ríó ráðstefnunni árið 1992.

 

Gert er ráð fyrir því að verkefnisstjórnin sem stýrt hefur þeirri undirbúningsvinnu sem nauðsynleg var  til að sveitarfélögin gætu mætt viðmiðum GREEN GLOBE 21 og jafnframt undirbúið Nesið undir væntanlega úttekt og vottun skili af sér verkefninu í byrjun nóvember. Verklokum mun fylgja ýtarleg skýrsla um helstu þætti mælingar, auk þess sem þar er að finna ýmsar upplýsingar sem ættu að auðvelda sveitarfélögunum að vinna frekar að sjálfbærri þróun umhverfis- og samfélagsmála á Snæfellsnesi.

 

Fréttatilkynning frá Framkvæmdaráði Snæfellsness.