Deiliskipulag framhaldsskólalóðar við Grundargötu

Auglýsing um tillögu að deiliskipulagi framhaldsskólalóðar við Grundargötu var birt í Lögbirtingablaðinu 3. október sl.   Tillagan tekur til svæðis sem liggur milli Grundargötu 42 og 50. Auglýsingin er í samræmi við áður auglýsta tillögu að aðalskipulagi Grundarfjarðar 2003-2015, sem nú er í staðfestingarferli.  Svæðið er skilgreint sem miðsvæði í aðalskipulagstillögunni og afmarkast af af íbúðarsvæði við Sæból í norðri og vestri, Grundargötu í suðri og miðsvæði í austri.  

Samþykkt um kattahald í Grundarfirði

Á næsta fundi bæjarstjórnar Grundarfjarðar verður tekin til síðari umræðu samþykkt um kattahald í Grundarfirði.  Í drögum er gert ráð fyrir að kattahald  muni sæta takmörkunum þannig að skrá eigi alla heimilisketti hjá Grundarfjarðarbæ.  Þar munu eigendur fá afhenta plötu með skráningarnúmeri, heimilisfangi og símanúmeri eiganda kattarins.  Kattareigandinn þarf árlega að láta hreinsa köttinn af spóluormum.  Kattahald í dreifbýli mun að öllu jöfnu ekki sæta takmörkunum.    Eigendum verður gert að gæta þess að kettir þeirra valdi ekki tjóni, hættu, óþrifnaði eða raski ró manna.  Á varptíma ber forráðamönnum katta að taka tillit til fuglalífs á varptíma, t.d. með því að hengja bjöllu á ketti og eftir atvikum að takmarka útiveru katta.    Jafnframt er bæjarstjórn Grundarfjarðar veitt heimild til að gera ráðstafanir til útrýmingar á villiköttum.  

966 tonnum landað í Grundarfjarðarhöfn í september

Í síðasta mánuði var landað 966 tonnum af fiski í  Grundarfjarðarhöfn.  Landað var 258 tonnum af þorski, 123 tonnum af ýsu, 134 tonnum af gullkarfa, 50 tonnum af ufsa og 275 tonn fóru í gáma til útflutnings.  Gámafiskurinn er ekki sundurliðaður.  Afli í einstökum tegundum, þ.e. þorsk og gámafisk  er mjög áþekkur því sem var á sama tíma í fyrra, en hörpudiskurinn hefur alveg horfið.  Hörpudiskaaflinn var 286 tonn í sept í fyrra, en enginn núna.  Ýsuaflinn er þriðjungi minni en á sama tíma í fyrra, en aflinn í gullkarfa nærri tvöfaldast.  Hafin er veiði og vinnsla á beitukóng í Grundarfirði og var landað samtals 63 tonnum af beitukóng í september.  

Samkeppni um rafrænt samfélag

Samkeppni um rafrænt samfélag er lokið. Tvö verkefni hafa verið valin til þátttöku í þróunarverkefni, sem mun standa í þrjú ár. Að þessum verkefnum standa annars vegar sveitarfélögin Árborg, Hveragerði og Ölfus, undir verkefnaheitinu "Sunnan 3", og hins vegar sveitarfélögin Aðaldælahreppur, Húsavíkurbær og Þingeyjasveit, undir verkefnaheitinu "Virkjum alla."   Tvö önnur verkefni voru í samkeppninni; ,,Tæknibærinn – Grundarfjörður” og verkefni frá Snæfellsbæ.   Sjá nánar fréttatilkynningu frá Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu  

Snæfellnes - vottaður umhverfisvænn áfangastaður

Í síðast liðinni viku voru tekin fyrstu skrefin í undirbúningsferli því sem liggur að baki vottun á Snæfellsnesi sem umhverfisvænum áfangastað í ferðaþjónustu með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.   Stýrihópur verkefnisins hélt kynningu fyrir sveitarstjórnarmönnum í hverju sveitarfélagi, embættismönnum og fólki úr atvinnulífinu dagana 15., 16. og 17. september 2003.  Þau eru Reg. Easy, forstjóri vottunarsviðs Green Globe 21; Kym Norman framkvæmdastjóri Ethos ráðgjafafyrirtækisins sem veitir ráðgjöf varðandi umhverfismál, markaðssetningu og viðskipti; Guðrún G. Bergmann, ferðamálafræðingur og ráðgjafi og Guðlaugur Bergmann, verkefnisstjóri og ráðgjafi.  

Göngur og réttir

Réttað verður í Eyrarsveit n.k. laugardag 20. september, að þessu sinni að Mýrum og Hömrum. Aðrar göngur fara fram laugardaginn 4. október n.k. og réttað sama dag.

Fjölbrautaskóli Snæfellingar

Fjölbrautaskóli Snæfellinga mun taka til starfa haustið 2004 og verður skólabyggingin staðsett við Grundargötu í Grundarfirði,  samkvæmt samkomulagi sveitarfélaganna á norðanverðu Snæfellsnesi.  Skólanum er ætlað að vera leiðandi í breyttum námsháttum með notkun upplýsingatækninnar.  Er áætlað að nemendur verði alls um 170 talsins, fyrstu tvö skólaárin verði í boði haustið 2004, þriðja árið bætist við haustið 2005 og það fjórða 2006.   

Kostnaðaþátttaka vegna tónlistarskólanema á framhaldsskólastigi

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum 11. sept. s.l. að taka þátt í kostnaði vegna nemenda í tónlistarnámi á framhaldsskólastigi í Reykjavík.   Grundarfjarðarbær tekur þátt í greiðslu kostnaðar við tónlistarnám í Reykjavík að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:          a)  Nemandi eigi lögheimili í Grundarfirði.         b)  Nemandi stundi nám í tónlistarskóla á framhaldsskólastigi þ.e. 6.–8. stigi.2.  Grundarfjarðarbær greiðir ekki niður skólagjöld.  Grundarfjarðarbær tekur þátt í greiðslu á hluta sveitarfélagsins í skólakostnaði og greiðir með hverjum nemanda, að hámarki, upphæð sem svarar meðaltalsframlagi til Tónlistarskóla Grundarfjarðar fyrir hvern nemenda.3.  Reglur þessar gilda til næstu áramóta og verða þá teknar til endurskoðunar.   

Veðurmælingar

Veðurstofan er búin að setja upp veðurmælinn í Grafarlandi sem sagt var frá í bæjardagbókinni 10. sept. sl.. Hægt verður að fylgjast með hitastigi, vindhraða og úrkomu í Grundarfirði á vedur.is.  

Brúum bilið, samstarf Leikskólans Sólvalla og Grunnskóla Grundarfjarðar

Í 5. tölublaði , Skólavörðunnar, blaðs Kennarasambands Íslands birtist grein rituð af Sigríði Herdísi Pálsdóttur, leikskólastjóra og Matthildi Guðmundsdóttur, aðstoðarleikskólastjóra um reynslu þeirra af samstarfi leikskóla og grunnskóla í Grundarfirði.